Evrópa er vond við Davíð

Punktar

Davíð getur ekki slegið Evrópu leiftursnöggt í skallann. Þess vegna fer hún sínu fram án samráðs við hann, sem ekki fær dulið gremju sína. Nú er hún að þenja sig til austurs og spillir óvart tvíhliða samningum Íslands við ríki í Austur-Evrópu, þar sem við höfum komið inn tollfríum fiski. Af því að við viljum ekki vera með í Evrópu, heldur hafa Fríverzlunarsamtök til að semja við hana um Evrópskt efnahagssvæði, neyðumst við til að biðja hana um að fá að halda fiskmarkaði okkar í Austur-Evrópu. Í staðinn vill hún, að við tökum meiri fjárhagslegan þátt í að hjálpa fátækum þjóðum í Evrópu, en það vill Davíð alls ekki. Allt væri þetta miklu einfaldara, ef við skildum, að ríki, sem er háð erlendum aðgangi fyrir afurðir sínar, getur ekki staðið fyrir utan tollmúra, heldur verður að koma sér í hlýjuna fyrir innan, þar sem líka fæst lágt vöruverð, lágir vextir og hentug evra.