Evrópa niðurlægð

Punktar

Evrópusambandið hefur tvisvar gefizt upp fyrir Bandaríkjunum á einni viku. Á fimmtudaginn ákvað það að hætta við að beita Bandaríkin refsiaðgerðum vegna nýrra stáltolla þeirra. Í gær var áfallið meira, þegar sambandið féllst á, að ríki þess gætu gert tvíhliða samninga við Bandaríkin um að draga ekki bandaríska hermenn og embættismenn fyrir nýja stríðsglæpadómstólinn í Haag. Brezka stjórnin var sem oftar fimmta herdeildin í sambandinu og fékk hægri stjórnirnar á Ítalíu og Spáni í lið með sér. Þetta fordæmi munu ýmis ríki Austur-Evrópu nota til að gera tvíhliða samninga við Bandaríkin án þess að spilla umsóknum sínum um aðild að Evrópusambandinu. Með þessu hafa stríðsglæpadómstóllinn og Evrópusambandið beðið pólitískan hnekki. Thomas Fuller skrifar um þetta í International Herald Tribune í dag og Kenneth Roth í gær.