Evrópa stjórnar Íslandi

Greinar

Hurð skall nærri hælum í Brussel á mánudaginn, er landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsríkjanna ákváðu að hlífa fiskimjöli að nokkru leyti við banninu, sem sett hefur verið á notkun kjötmjöls. Samkvæmt ákvörðun þeirra má áfram nota fiskimjöl í fiskirækt og í ræktun svína og alifugla, en ekki lengur í ræktun jórturdýra.

Utanríkisráðherra Íslands, utanríkisráðuneytið og sendimenn Íslands í löndum Evrópusambandsins unnu gott starf í þröngri stöðu máls, sem bar að með óvenjulegum hraða. Í samstarfi við Norðmenn utan bandalagsins og Breta og Dani innan þess hafðist varnarsigur.

Enginn efast um, að fiskimjöl var haft fyrir rangri sök, þegar því var slengt með kjötmjöli á bannlista Evrópusambandsins fyrir helgina. Ekkert bendir til samhengis fiskimjöls við Creutzfeld-Jakobs-heilahrörnun. Varnarstríðið hafði styrk af því að vera málefnalegt.

Málið er einkar athyglisvert og lærdómsríkt. Við getum spurt okkur, hvað gerist næst. Hvað er til ráða, ef Evrópusambandið bannar sölu á fiskafurðum með meiru en ákveðnu lágmarki af díoxíni? Þá er miklu meira í húfi en mjölið eitt og málefnastaða okkar mun veikari.

Ekki stoðar að segja, að díoxínið í Norðurhöfum hafi borizt þangað frá löndum Evrópusambandsins með hafstraumum og sé því bara komið til föðurhúsanna. Ef almenningur í Evrópu verður skelfingu lostinn út af díoxíni, verða ekki gefin út nein upprunavottorð.

Skyndibannið við kjötmjöli og að hluta til fiskimjöli stafar af hræðslu stjórnmálamanna í ríkjum Evrópusambandsins við dauðskelkaðan og fokreiðan almenning, sem veit núna, að hann hefur lengst af fengið rangar upplýsingar, sem miðuðu eingöngu að því að róa fólk.

Brezkir stjórnmálamenn hafa verið staðnir að lygum, sem hafa leitt til, að Creutzfeld-Jacobs-heilahrörnun hefur margfaldazt í Bretlandi og flutzt út til Frakklands. Áður hafa franskir stjórnmálamenn verið staðnir að lygum um, að blóðbankar þar í landi hafi aðeins ómengað blóð.

Í hverju málinu á fætur öðru hafa stjórnmálamenn verið staðnir að glæpsamlega röngum fullyrðingum til að friða fólk og þannig tafið fyrir, að tekið yrði á málum í tæka tíð. Þessir stjórnmálamenn eru núna rúnir mannorði sínu og verða nánast að fara huldu höfði.

Stjórnmálamennirnir, sem nú eru við völd í ríkjum Evrópusambandsins hafa margir hverjir lært af þessu og þora ekki annað en að hlaupa upp til handa og fóta, þegar hneykslin springa út. Þeir vilja ekki, að almenningur telji þá fara sér of hægt við að grípa í taumana.

Af ótal gefnum tilefnum hefur almenningsálitið í löndum Evrópusambandsins tekið völdin af trausti rúnum stjórnmálamönnum. Enginn veit, hvar eða hvenær reiði almennings lýstur niður næst. Díoxín-mengun í fiski af norðurslóðum gæti verið næsta hneykslismálið.

Ekki er síður lærdómsrík staða Íslands utan Evrópusambandsins. Við höfum þar engan atkvæðisrétt, þótt við sætum ákúrum fyrir að þýða ekki reglugerðir sambandsins á íslenzku með nægum hraða. Við verðum í raun að sitja og standa eins og sambandinu þóknast.

Flest er það til bóta, sem við fáum frá sambandinu með þessum hætti. Hinu er ekki að leyna, að heldur er það fátækleg staða að þiggja endalausa röð reglugerða frá sambandinu, en hafa á móti engan atkvæðisrétt í þeim fáu málum, sem varða hagsmuni okkar sérstaklega.

Þegar díoxínið verður afgreitt í Evrópusambandinu væri það hagur okkur að vera þar innanbúðarmenn.

Jónas Kristjánsson

DV