Evrópa sundrast

Greinar

Lokið er skammvinnu tímabili uppstokkunar eftir fráfall Sovétríkjanna. Evrópa er að skiptast á nýjan leik og á þann hátt, að kaþólsk ríki fá inngöngu í vestrænt samfélag, en orþódox og íslömsk ríki fá það ekki. Austurmæri Habsborgararíkisins hafa verið endurvakin.

Kaþólsku löndin Pólland, Tékkland og Ungverjaland hafa fengið aðild að Atlantshafsbandalaginu. Sömu lönd og Slóvenía og Eistland að auki hafa komizt í forgangsröð aðildar að Evrópusambandinu. Hins vegar verður Tyrkland áfram að vera úti í kuldanum.

Margir telja, að Evrópa sé núna loksins að skiptast á eðlilegan hátt, milli fornra menningarheima. Vestan hins nýja járntjalds verði arftakaríki Hins heilaga rómverska keisaradæmis, en austan þess verði arftakaríki Miklagarðs, heimkynni Tyrkja og Rússa.

Sagnfræðingar draga núna forna línu langsum eftir Evrópu, þar sem Eystrasaltsríkin lenda vestan við, en austan við Úkraína mestöll, Hvíta-Rússland, Rúmenía, Búlgaría, Serbía, Svartfjallaland, Makedónía og raunar Grikkland líka eins og Tyrkland, Albanía og Bosnía.

Þær raddir eru farnar að heyrast, að ekki sé aðeins þátttaka Tyrkja í Atlantshafsbandalaginu sagnfræðileg tímaskekkja, heldur sé þátttaka Grikkja í Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu það einnig. Þessi frávik séu úreltur arfur frá dögum kalda stríðsins.

Minnt er á, að Grikkir séu yfirleitt til vandræða í Evrópusambandinu, sendi þangað gagnslausa forstjóra og afleita fundarstjóra, en séu harðdrægir við að skafa upp úr gullkistunum. Ennfremur er minnt á endalausar erjur Grikkja og Tyrkja, sem varði vestrið litlu.

Tyrkir benda á þessa skiptingu Evrópu. Þeir segjast vera úti í kuldanum, af því að þeir séu íslömsk þjóð. Það sé eina skýringin á því, hvers vegna þeir séu látnir híma í biðsölum Evrópusambandsins, en fram fyrir séu tekin kaþólsk ríki, sem eru nýkomin í biðröðina.

Evrópusambandið bendir hins vegar á tregðu Tyrkja við að bæta mannréttindi og koma málum Kúrda í mannsæmandi horf. Meðan enginn bati verði á þessum tveimur sviðum sé þess ekki að vænta, að Tyrkland verði tekið í réttlætissamfélag Vestur-Evrópu.

Sannleikurinn er vafalaust miðja vega milli þessara sjónarmiða. Ekki er umdeilt, að Tyrkir hafa látið undir höfuð leggjast að laga til hjá sér. Það er um leið þægileg afsökun fyrir að fresta endalaust að taka afstöðu til óska þeirra um að komast í fínimannsklúbbinn.

Stríðið í arfaríkjum Júgóslavíu vakti minningu um forna skiptingu Evrópu. Hinir orþódoxu Serbar nutu stjórnmálastuðnings Rússa og viðskiptastuðnings Grikkja, en hinir kaþólsku Króatar nutu stuðnings Ítala, Austurríkismanna og Suður-Þjóðverja.

Bosnía hefur reynzt vera skurðpunktur þriggja menningarheima. Þar mættust íslam, austurkristni og vesturkristni. Stuðningsríki málsaðila skiptust eftir hreinum trúarbragðalínum, að öðru leyti en því, að múslímar nutu að nokkru réttlætishneigðar Vesturlanda.

Þegar íslenzkur utanríkisráðherra segir skiptingu Evrópu heyra sögunni til, og íslenzkur leiðarahöfundur segir Evrópu vera að sameinast, tala þeir þvert gegn augljósum staðreyndum. Evrópa er því miður að frjósa að nýju í fornar fylkingar eftir skammvinna hláku.

Ný lína hefur verið dregin suður eftir Evrópu nokkru austar en gamla járntjaldið. Stjórnmálaþróun ársins 1997 bendir til, að nýja járntjaldið sé að sundra Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV