Evrópu rekur stefnulaust

Greinar

Meiri harka er komin í baráttuna í Evrópu milli þeirra, sem vilja auka samstarfið í Evrópusambandinu, og hinna, sem vilja takmarka það við fríverzlun. Tony Blair frá Bretlandi fór á toppfund Evrópu ákveðinn í að sprengja fundinn og það tókst. Engin niðurstaða náðist í fjárlögum sambandsins.

Bretland hafði stuðning Hollands og Svíþjóðar, en tapaði stuðningi Austur-Evrópu á fundinum. Austanríkin hafa hingað til verið hallari undir Bretland heldur en Frakkland og Þýzkaland, en nú sáu þau slegið á frest væntingum sínum um stóraukin framlög til þróunar. Og kenna Tony Blair um.

Deilurnar í Evrópusambandinu sprungu í loft upp í kjölfar falls stjórnarskrárinnar í kosningum í Frakklandi og Hollandi. Margar ástæður voru að baki niðurstöðunnar, en þeir voru örugglega fáir, sem vildu refsa bandalaginu fyrir að skorta markaðsvæðingu, hnattvæðingu og frjálshyggju.

Miklu fleiri kjósendur höfnuðu stjórnarskránni af ótta við, að samþykkt hennar mundi leiða til öflugari markaðshyggju, hnattvæðingar og frjálshyggju í Evrópu. Flestir voru þeir þó að refsa Evrópusambandinu fyrir að vera hrokafullt embættismannaveldi, óralangt frá venjulegum kjósendum.

Evrópu mun næstu mánuði reka stefnulaust án þess að geta fótað sig í nýjum aðstæðum. Tony Blair verður forseti sambandsins til áramóta og mun ekki ná árangri, því að reiðin út í hann er mikil, bæði af hálfu upphafsríkja sambandsins og nýkomnu ríkjanna frá Austur-Evrópu.

Evrópa fær ekki vind í seglin fyrr en embættismenn og pólitískir ráðamenn þess átta sig á, að ekki er lengur hægt að stýra skipinu án samráðs við almenning. Að ekki er lengur hægt að stýra skipi, sem almenningur hefur í flimtingum og níði. Ráðamenn Evrópu verða að leggja niður embættishroka.

Sem betur fer gerist ekkert alvarlegt næstu misserin. Sambandið gengur af sjálfu sér eins og hver önnur stofnun með fastar tekjur. Evran riðar að vísu um sinn, en mun róast, þegar öldur lægja að nýju. Evrópa í naflaskoðun verður auðvitað minna áberandi á alþjóðlegum vettvangi.

Í þessu millibili verður Evrópa lakari kostur fyrir Ísland, en hins vegar verður hún þverari en áður í samskiptum við þá, sem vilja græða, án þess að vera með, svo sem Ísland.

DV