Evrópu-þröskuldur

Greinar

Erfiðleikar Evrópubandalagsins í samskiptum við Ísland og Noreg endurspeglast í öðrum erfiðleikum þess út á við, einkum gagnvart nýfrjálsum ríkjum Austur- Evrópu og í alþjóðlegum fríverzlunarviðræðum á vegum GATT-samkomulagsins, sem kenndar eru við Uruguay.

Þótt til sé gullvæg setning, sem segir, að sjaldnast valdi einn, þá tveir deili, þá beinist athyglin auðvitað mest að þeirri stofnun, sem jafnan er öðrum megin borðsins, þegar slík vandamál koma upp. Sú stofnun er Evrópubandalagið, sem getur bara étið, ekki samið.

Velgengni Evrópubandalagsins byggist meðal annars á þátttöku efnahagsrisa á borð við Þýzkaland og stærð markaðarins innan bandalagsins. Þess vegna vilja mörg ríki, svo sem Svíþjóð og Austurríki, komast inn í bandalagið, þótt það kosti afslátt af fullveldi þeirra.

Evrópubandalagið hefur getað melt ríki, sem koma inn. Það getur hins vegar ekki gert fjölþjóðasamninga út á við. Mestu veldur þar, að þrýstihópar eiga greiðan aðgang að stjórnmálamönnum og embættismönnum bandalagsins, einkum í landbúnaði og sjávarútvegi.

Við getum betur skilið þetta, ef við ímyndum okkur þá hliðstæðu, að íslenzka landbúnaðarráðuneytið ætti að gera viðskiptasamninga við útlönd fyrir Íslands hönd. Þá mundi sérhagsmuna hefðbundins landbúnaðar vera gætt í hvívetna, á kostnað íslenzkra neytenda.

Íslenzka landbúnaðarráðuneytið mundi í slíkum viðræðum gæta þess, að ekki yrði innflutningur á neinni þeirri vöru, sem ekki er flutt inn núna. Niðurstaðan yrði auðvitað sú, að ekki yrði af neinum samningum og landbúnaðurinn héldi áfram að sliga þjóðina.

Þetta sama dauðahald í sérhagsmuni þrýstihópa höfum við séð í viðræðum Efnahagsbandalagsins við Fríverzlunarsamtökin um evrópskt efnahagssvæði. Þær viðræður fóru út um þúfur, af því að embættismenn og þrýstihópar landbúnaðar og sjávarútvegs réðu ferð.

Evrópa stendur nú á tímamótum, sem Evrópubandalagið mun klúðra. Það eru samskiptin við Austur- Evrópu, sem byggja vonir sínar um framfarir á að geta komið tiltölulega ódýrum landbúnaðarafurðum sínum í verð. Aðra frambærilega vöru hefur austrið ekki.

Sérshagsmunir hefðbundins landbúnaðar í Evrópubandalaginu hafa hingað til og munu áfram koma í veg fyrir skynsamlegan samning milli austurs og vesturs í Evrópu um frjálsari verzlun landbúnaðarafurða. Þetta mun setja lýðræðisþróun í austri í aukna hættu.

Svipað hefur verið uppi á teningnum og verður uppi í fríverzlunarviðræðum GATT-samtakanna. Þar er þó enn meira í húfi, því að viðskiptastríð milli þríhyrningsins Bandaríkja-Japans-Evrópubandalags er í aðsigi, ef ekki fæst skjót niðurstaða í ágreiningsefnunum.

Enn og aftur er það evrópskur landbúnaður, sem liggur þversum í vegi samkomulags um alþjóðlega fríverzlun. Þótt Bandaríkin og Japan eigi nokkra sök á erfiðri framvindu mála í GATT-viðræðunum, hvílir þó meginsökin á Evrópubandalaginu og samningamönnum þess.

Athyglisvert er, að í öllum þessum ágreiningsefnum Evrópubandalagsins við umheiminn eru samningamenn þess ekki að gæta hagsmuna evrópskra neytenda, sem mundu hagnast á að fá fiskafurðir frá Íslandi og Noregi og búvöru frá Austur-Evrópu og öðrum álfum.

Nú er kominn tími til, að stjórnendur Evrópubandalagsins skilji, hvernig þröngir sérhagsmunir eru að stefna friði og farsæld mannkyns í tvísýnu.

Jónas Kristjánsson

DV