Evrópuhagnaður okkar

Greinar

Fiskveiðisamningur Íslands og Evrópusamfélagsins var staðfestur fyrir helgina. Þessi samningur er frambærilegur og veldur því, að nú er loksins óhikað hægt að fullyrða, að þátttaka Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu muni verða okkur gott tækifæri til framfara.

Samningurinn ber greinileg merki orðaskaks, þar sem lagakrókamenn Íslands hafa greinilega haft í fullu tré við starfsbræður sína hjá Evrópusamfélaginu. Hann felur meðal annars í sér ýmsa fyrirvara á, að evrópsk skip fái 3.000 tonna karfaveiði á Íslandsmiðum.

Íslendingar geta haft gott eftirlit með framkvæmd fiskveiðisamningsins. Við getum haft eftirlitsmenn um borð í skipunum á kostnað útgerðanna. Skipin geta ekki komið með afla frá öðrum miðum til veiða í fiskveiðilögsögunni án þess að landa honum á Íslandi.

Þótt ekki hafi allar íslenzkar kröfur náð fram að ganga í þessum samningi, er hann miklu nær þeim kröfum en hinum evrópsku. Hann kemur á varanlegum friði um nánast engin fiskveiðiréttindi af hálfu Evrópu í kjölfar aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Að öllu samanlögðu mun aðildin færa okkur hagsæld. Hún flytur með sér mikið af kostum Evrópusamfélagsins og lítið af göllunum. Enda fjallar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið mest um viðskipti og efnahag, en Evrópusamfélagið snýst um margt fleira.

Við þurfum ekki að taka þátt í rándýrri landbúnaðarstefnu Evrópusamfélagsins, enda eigum við fullt í fangi með okkar eigin. Við þurfum ekki að greiða skatta í digra sjóði Evrópusamfélagsins. Við þurfum ekki að hlíta sameiginlegri utanríkis- og varnarstefnu.

Við munum njóta lækkunar á tollum á ýmsum fiskafurðum okkar, einkum saltfiski. Við munum líka njóta þess sem neytendur, að við lækkum tolla og leyfum innflutning á ýmsum vörum, sem munu verða til að lækka vöruverð hér á landi og bæta lífskjör fólks.

Ekki er fráleitt að telja, að þátttakan í Evrópska efnahagssvæðinu muni bæta þjóðarhag um 5%. Það kemur sér vel í aðvífandi kreppu, sem stafar annars vegar af ofveiði og aflaleysi og hins vegar af offjárfestingu í sjávarútvegi, landbúnaði og gæluverkefnum hins opinbera.

Flestar eða allar aðrar þjóðir Fríverzlunarsamtakanna munu ekki nema staðar við efnahagslegan ávinning af Evrópska efnahagssvæðinu. Ráðamenn þeirra líta á svæðið sem biðstofu hreinnar aðildar að Evrópusamfélaginu og hafa formlega sótt um hana.

Eftir nokkur ár verður Ísland líklega eina ríkið, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið nær til. Önnur ríki Fríverzlunarsamtakanna verða gengin í Evrópusamfélagið. Þar með breytist fjölþjóðasamningurinn formlega eða óformlega í tvíhliða samning okkar.

Félagar okkar í Fríverzlunarsamtökunum munu ekki hafa mikinn áþreifanlegan ávinning af fullri aðild. Framleiðni kann að aukast vegna harðari samkeppni. En þau þurfa að greiða miklar fúlgur í sameiginlega sjóði, sem að mestu verða notaðir sunnar í álfunni.

Finnar, Norðmenn og Svíar munu ekki græða peninga á að ganga í Evrópusamfélagið. Eins og hjá okkur kemur gróði þeirra að mestu fram í Evrópska efnahagssvæðinu. Með fullri aðild eru þessi ríki hins vegar að reyna að seilast til pólitískra áhrifa í Evrópu.

Senn mun Alþingi samþykkja Evrópska efnahagssvæðið. Þá má hefja í alvöru umræður um, hvort rétt sé að stíga skrefinu lengra eins og nágrannar okkar.

Jónas Kristjánsson

DV