Evrópumartröð

Greinar

Svo getur farið, að Íslendingar sitji eftir með Svisslendingum og Liechtensteinum í þriggja ríkja fríverzlunarklúbbi, þegar önnur ríki Fríverzlunarsamtakanna eru gengin í Evrópubandalagið. Svíþjóð og Austurríki hafa sótt um aðild, Noregur og Finnland fylgja á eftir.

Þessi staða er þolanleg. Við búum þegar við fríverzlunarsamning við Evrópubandalagið um tollfrjálsan aðgang flestra sjávarafurða okkar annarra en saltfisks. Við höfum hingað til getað búið við þennan samning og munum geta það áfram, þótt við sitjum einir á báti.

Aðildarumsóknir Svíþjóðar og Austurríkis spilla fyrir viðræðum um evrópskt efnahagssvæði. Þær styrkja embættismenn Evrópubandalagsins í þeirri sannfæringu, að útlend ríki eigi að koma á hnjánum til bandalagsins, en ekki að halda uppi hörðu samningaþrasi.

Embættismenn Evrópubandalagsins vita, að þeir þurfa ekki að semja við ríki Austur-Evrópu um aðild, þegar þar að kemur. Þeir telja sig munu geta lesið fyrir skilmálana án nokkurra samningaviðræðna. Þar verður um að ræða eins konar skilyrðislausa uppgjöf.

Þeir vita líka, að flest ríki Fríverzlunarsamtakanna munu fyrr eða síðar koma á hnjánum til bandalagsins, þótt ekki náist samkomulag um evrópskt efnahagssvæði að þessu sinni. Þetta stuðlar að svo mikilli hörku þeirra, að þeir taka ekki mark á eigin stjórnmálamönnum.

Við þetta bætist svo, að samgangur embættismanna Evrópubandalagsins við hagsmunaaðila í ríkjum bandalagsins er oft meiri og nánari en við hina veiku stjórnmálamenn ríkjanna. Þrýstihóparnir og embættismannagengið mynda í rauninni samstæðan hóp.

Þetta ástand minnir mjög á íslenzka landbúnaðarráðuneytið, sem er fyrst og fremst framlengdur armur hagsmunasamtaka, en ekki ráðuneyti í hefðbundnum stíl. Við vitum, að ráðuneytið brjálast, ef hróflað er við þrýstikerfinu, og að það hagar sér sem ríki í ríkinu.

Munur Íslands og Evrópubandalags er fyrst og fremst, að þar eru sjávarútvegsmál deild í landbúnaðarráðuneyti og lúta þar sömu hagsmunalögmálum og íslenzkur landbúnaður hér. Óheft verndarstefna nær þar til sjávarútvegs, sem við viljum hins vegar, að lúti fríverzlun.

Þegar við bætist, að utanríkisráðherrar ríkjanna, sem hafa reynt að semja um evrópskt efnahagssvæði, geta ekki náð samkomulagi um, hvað þeir hafi náð samkomulagi um á furðufundinum í Lúxemborg í júní, er ekki von á, að embættismenn taki mark á þeim.

Enn bætist við sá vandi, að hingað liggur straumur ráðamanna, allt frá dönskum utanríkisráðherra yfir í franskan forseta, sem lýsa yfir skilningi á málstað Íslendinga og stuðningi við hann. Á sama tíma fréttum við, að þessi ríki vinni í raun gegn þessum málstað.

Af allri þessari martröð má ráða, að okkur dugir ekki að skrifa undir ófullgert samkomulag, sem embættismönnum sé ætlað að ljúka. Slík hreingerning embættismanna mun örugglega verða okkur til bölvunar. Þess vegna eigum við að neita að undirrita málamyndaplagg.

Ef hins vegar eftir þessa helgi næst skyndilega síðustu stundar samkomulag stjórnmálamanna, sem verður í samræmi við túlkun okkar manna á niðurstöðu Lúxemborgarfundarins í síðasta mánuði, getum við sætzt á að verða aðilar að evrópsku efnahagssvæði.

Við skulum samt gera okkur grein fyrir, að líkur eru ekki miklar á slíkri túlkun, og gera ráð fyrir að þurfa að vera áfram utan evrópsks efnahagssamstarfs.

Jónas Kristjánsson

DV