Evrópusamruni er martröð

Greinar

Bandaríkin eru engin Júgóslavía, en eiga samt að geta sýnt okkur og Evrópumönnum, að sambandsríki þjóða eða annarra misjafnra hópa er misheppnuð aðferð við að raða fólki í fullveldiseiningar og að miðstýrð Evrópa er ekki framtíðardraumur, heldur martröð.

Kynþáttaóeirðirnar í Los Angeles eru ekki fyrsta vandamálið af þessu tagi í Bandaríkjunum og verða ekki hið síðasta. Tilraunin með bræðslupott þjóðanna hefur mistekizt. Þjóðir Bandaríkjanna lifa meira eða minna út af fyrir sig og hata hver aðra í vaxandi mæli.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum treysta sér ekki til að reyna að rjúfa vítahringinn, sem lýsir sér meðal annars í að svertingjar og aðrar undirþjóðir safnast saman í miðlæg örbirgðarhverfi og Evrópuættað fólk í ríkmannleg úthverfi, sem sum hver eru læst fyrir óviðkomandi.

Júgóslavía er róttækara dæmi um hrun hugmyndarinnar um sambandsríki þjóða. Þar var mörgum þjóðum þrýst gegn vilja þeirra inn í eitt ríki. Þegar miðstjórnarvaldið hrundi, kom í ljós, að undir kraumaði hatur, sem var orðið að krabbameini í samskiptum þessara þjóða.

Íbúar Vestur-Evrópu ættu líka að geta litið sér nær. Víðs vegar er ljóst, að staðbundnir minnihlutahópar sætta sig ekki við yfirráð ríkisheildar og valda margvíslegum sambúðarerfiðleikum, sem ekki leysast á annan hátt en með meiri eða minni sjálfstjórn þeirra.

Baskar og Katalónar hafa fengið aukna sjálfstjórn og heimta meiri. Korsíkumenn eru komnir af stað með svipuð sjónarmið. Belgía er klofin í herðar niður og býr meira að segja við tvöfalt kerfi stjórnmálaflokka. Bretar virðast ekki sjá leið úr vandræðum Norður-Írlands.

Í ljósi alls þessa er undarlegt, að yfirstéttir Vestur- Evrópu skuli vera að reyna að búa til sambandsríki úr Evrópusamfélaginu í Bruxelles án þess að leita eftir formlegum stuðningi almennings við slíkar ákvarðanir og án hefðbundins þingræðis í Evrópusamfélaginu.

Evrópusamfélagið lýtur ekki vestrænum lýðræðishefðum, meðal annars vegna þess, að kjósendur eru ekki spurðir um afsal fullveldis og að þingið hefur nánast engin völd, en ráðherrar og embættismenn í Bruxelles ráða öllu í stíl kínverskra mandarína á fyrri öldum.

Danir hafa borið gæfu til að segja yfirstétt Vestur- Evrópu, að þessi sambræðsla Evrópu muni ekki takast. Þeir felldu Maastricht-samkomulagið, sem hefði sáð til vandamála, er síðar mundu fá útrás á einhvern hátt, sem við höfum séð við Kyrrahafið og á Balkanskaga.

Sem betur fer hafa stjórnmálamenn og -skýrendur rangt fyrir sér, þegar þeir segja, að Evrópusamfélagið muni skilja Dani eftir. Þvert á móti munu Danir ráða ferðinni, því að það væri stjórnarskrárbrot í Evrópusamfélaginu að brjóta neitunarvald Rómarsáttmálans.

Mandarínarnir í Bruxelles munu ekki komast upp með að stofna sambandsríki Maastricht-samkomulags fram hjá samfélagi Rómarsáttmála. Þeir munu reyna það, en hafa misst tök á þróun mála. Galdur þeirra hefur brugðizt, og fólk er að byrja að sjá gegnum þá.

Bezt væri fyrir Evrópu, ef yfirstétt hennar lærði lexíuna hjá Dönum og beindi orku sinni að brýnni atriðum en pólitískum samruna. Mikið starf er enn óunnið við að draga úr viðskiptahindrunum og leggja niður risavaxið landbúnaðarskrímsli Evrópusamfélagsins.

Í Júgóslavíu og Bandaríkjunum og Norður-Írlandi má sjá litróf þess, sem gerist, ef menn halda sér ekki við hugtakið þjóð sem heppilega fullveldiseiningu.

Jónas Kristjánsson

DV