Evrópusigur

Greinar

Sameinuð Evrópa vann mikinn sigur á miðvikudaginn, þegar þing Evrópusambandsins kúgaði nýjan forsætisráðherra sambandsins, José Manuel Barroso, til að falla frá umdeildum ráðherralista sínum og taka sér nokkurra vikna hlé til að ganga frá nýjum lista, sem þinginu verður þóknanlegri.

Þetta táknar, að lýðræði er að leka inn í Evrópusambandið með auknu þingræði. Veikt og smáð þing er smám saman að taka til sín meiri völd. Fyrir fimm árum felldi það Santer forsætisráðherra og alla stjórn hans undir lok ferils hennar. En á miðvikudaginn féll hin ófædda stjórn Barroso.

Þetta skiptir máli fyrir alla Evrópu, líka fyrir þær þjóðir, sem standa utan bandalagsins. Þetta dregur til dæmis úr líkum á, að Ísland gerist aðili. Enda sagði Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, að hann óttaðist, að þingræði væri að skríða inn í sambandið og gera það að sambandsríki.

Persson komst einmitt að kjarna málsins. Með auknum áhrifum þings Evrópusambandsins fara stjórnmálaöfl og kjósendur að taka meira mark á þinginu og leggja harðar að sér við að fá kjörna þangað sína menn. Þar með mun aukast áhugi fólks á Evrópu og áhrif álfunnar aukast í baráttu við þjóðríkin.

Hingað til hafa embættismenn og óbeinir aðilar frá stjórnum aðildarríkjanna ráðið mestu í Evrópusambandinu. Þingið er hins vegar kosið beint af fólkinu. Dómgreindarbrestur Barroso fólst í að vanmeta hina nýju hreyfingu í átt til aukins lýðræðis. Hér eftir verður hann lamaður stjórnandi.

Hingað til hafa stjórnir og stjórnmálamenn aðildarríkja Evrópusambandsins komist upp með að kenna andlitslausum mönnum í Bruxelles um flest, sem aflaga hefur farið í ríkjum Evrópu. Ef þjóðir Evrópu átta sig á, að þær eru að kjósa beint fulltrúa til valda í Evrópu, minnkar lygasvigrúmið.

Á síðustu stundu áttaði Barroso sig loksins á, að ekki bara krataþingmenn, heldur líka frjálslyndir þingmenn, mundu hafna ráðherralista hans, einkum vegna Rocco Buttiglione, róttæks afturhaldsmanns frá Ítalíu, sem hann ætlaði að skipa ráðherra réttlætismála, þvert gegn stefnu Evrópusambandsins.

Ekki þýðir fyrir hægri sinnaðan og dómgreindarskertan Barroso að stýra Evrópu í andstöðu við krata og frjálslynda með því að skipa í stjórnina ítalskan hatursmann kvenna og homma, hollenzkan umboðsmann hergagnahagsmuna og lettneska konu, sem er í vandræðum heima fyrir vegna fjárglæfra.

Smám saman verður Evrópa að lýðræðisríki, tvö skref áfram, eitt skref afturábak og sjö skref út á hlið. Þegar Evrópa nær eyrum kjósenda, mega gömul þjóðríki fara að vara sig.

Jónas Kristjánsson

DV