Evrópustríð um mat og kokka

Veitingar

BERLUSCONI GERIR GRÍN AÐ MATNUM í Finnlandi og Chirac gerir grín að matnum í Bretlandi. Heimamenn eru að vonum sárir og rekja dæmi þess, að ástandið sé ekki svona afleitt, Berlusconi og Chirac séu monthanar, sem viti þar að auki ekki, hvað þeir eru að tala um.

CHIRAC OG BERLUSCONI HAFA RÉTT FYRIR SÉR, því miður. Matur er afleitur í Bretlandi, sérstaklega almenningsfæði. Frægur er þar skelfilegur skólamatur, sem hefur orðið tilefni blaðaskrifa. Skólamatur í Frakklandi, á Spáni og á Ítalíu er himinhátt yfir brezkan skólamat hafinn.

VIÐ SKULUM BARA ÞAKKA FYRIR, að Chirac og Berlusconi skuli ekki nenna að gera grín að Íslandi.

FRAKKAR ELSKA MAT, ÞEIR TALA UM KOKKA eins og Bretar tala um fótboltamenn. Þegar kokkur skiptir um veitingahús er það eins mikið mál í Frakklandi og þegar fótboltamaður skiptir um félag í Bretlandi. Frakkar eru nautnaseggir. Þeir eiga frábært hráefni í mat. Þeir líta á matreiðslu sem listgrein.

VEITINGAHÚS ERU FÍN Í FRAKKLANDI, ekki bara dýru húsin, heldur líka bistro og brasserie. “Pub grub” í Bretlandi er hins vegar rakin skelfing. Það þýðir ekki fyrir Sun og Mirror að ganga af göflunum út af gríninu hjá Chirac, hann hefur einfaldlega rétt fyrir sér.

MARGT HEFUR LAGAZT Í BRETLANDI, svo og í Finnlandi og annars staðar á Norðurlöndum, einkum vegna áhrifa frá Frakklandi. Það er samt ekki hægt að bera ríki á jaðri siðmenningarinnar saman við sjálfar höfuðstöðvar hennar í Frakklandi og norðurhéruðum Ítalíu. Bon appetit! Buono appetit!

DV