Evrópuþrýstingur

Greinar

Norrænt samstarf með hefðbundnu sniði hefur gengið sér til húðar. Við blasir norrænt samstarf innan Evrópubandalagsins og sérstakt samstarf við löndin sunnan og austan Eystrasalts, Þýzkaland, Pólland og baltnesku ríkin, hvort tveggja án beinnar aðildar Íslands.

Á þingi Norðurlandaráðs kom skýrt fram, að þeir, sem eru á leið inn í Evrópubandalagið, telja, að verkefni muni flytjast frá Norðurlandaráði til bandalagsins. Má ráðið þó ekki við mikilli fækkun raunverulegra verkefna, því að mest stundar það atvinnubótavinnu.

Ár og dagur er síðan eitthvað kom af viti úr samstarfi 23 norrænna embættismannanefnda, 74 norrænna stofnana, 152 norrænna nefnda og úr 2000 norrænum verkefnum. Það er því ekki mikið misst, þótt Norðurlandaráð og fylgifiskar þess fái hægt andlát.

Áhugi norrænna stjórnmálaforingja beinist hreint og beint að Evrópubandalaginu og að nokkru leyti að Eystrasaltsráðinu, sem hefur verið stofnað án beinnar aðildar Íslands. Við erum að eingangrast í tilgangslitlu Norðurlandaráði og fáliðuðum Fríverzlunarsamtökum.

Mjög er þrýst af norrænni hálfu á íslenzka stjórnmálamenn að draga Íslendinga inn í Evrópubandalagið. Því er haldið fram, að norrænt samstarf muni rísa að nýju á iðavöllum bandalagsins, en að öðrum kosti blasi við hnignun í einangrun utan fyrirheitna landsins.

Sterk bein þarf til að þola þennan þrýsting, jafnvel þótt ekki séu ljósir hinir beinu viðskiptahagsmunir okkar af aðildinni umfram það, sem fæst af þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu. Okkur hefur ekki tekizt að koma upp iðnaði til að ráðast á Evrópumarkaðinn.

Enn eru í fullu gildi flestar efasemdir, sem áður hafa verið notaðar gegn bandalagsaðild. Landbúnaðarstefna bandalagsins er óhugnanlega dýr í rekstri og fjandsamleg neytendum. Hún mun á næstunni leiða til alvarlegra viðskiptaátaka í vestrænu samstarfi.

Evrópubandalagið er alls ekki lýðræðisleg stofnun. Þing þess er valdalítil og fremur ábyrgðarlítil ráðgjafarsamkoma. Það fær litlu ráðið gegn ofurveldi stjórnlyndra embættismanna, sem eru í nánu samstarfi við þrýstihópa stórfyrirtækja og samtaka stórfyrirtækja.

Embættismenn og þrýstihópar Evrópubandalagsins eru að reisa tollvirki, sem stefnt er gegn Bandaríkjunum og Japan og mun leiða til vandræða í alþjóðaviðskiptum á næstu árum. Bandalagið er árásargjarnt og þverlynt í viðskiptum, svo sem við höfum fengið að reyna.

Efnislega á fiskveiðiríki á borð við Ísland lítið erindi í ólýðræðislegt og verndarsinnað tollvirki, sem starfar eins og risavaxið landbúnaðarráðuneyti. En viðskiptahagsmunir kunna fyrr eða síðar að þvinga okkur til að sækja um aðild, þótt það sé okkur þvert um geð.

Þegar íslenzkur landbúnaður uppgötvar, að Evrópubandalagið er himnaríki fyrir úrelta atvinnuvegi, og þegar Íslendingar uppgötva um leið, að þeir hafi ekki lengur ráð á hefðbundnum landbúnaði, er hætt við, að við finnum ómótstæðilega þörf á að ganga inn í virkið.

Þegar það hefur gerzt, mun koma í ljós, að embættismenn Evrópubandalagsins líta á íslenzka hagsmuni eins og hverja aðra skiptimynt í víðara samhengi. Við munum missa yfirráð yfir auðlindum okkar, fiski og orku, ef við verðum ekki þeim mun betur á varðbergi.

Það verður upphafið að endalokunum, þegar við erum orðnir feitir bandalagsþrælar. Affarasælla er, að Ísland sé sín eigin þungamiðja og miðpunktur heimsins.

Jónas Kristjánsson

DV