Evru-bylting áramótanna

Greinar

Vextir lækka á meginlandi Evrópu um áramótin, þegar evran hefur göngu sína sem sameiginlegur gjaldmiðill flestra ríkja Evrópusambandsins. Lægri vextir lækka framleiðslukostnað og gera fyrirtæki svæðisins samkeppnishæfari og kraftmeiri í átaksverkefnum sínum.

Flest bendir til, að evran verði Evrópu enn hagstæðari en áður hafði verið gert ráð fyrir. Hún verður til dæmis víða notuð meðfram heimamyntinni í ríkjum, sem ekki eru aðilar að henni, svo sem í Danmörku og Noregi. Af því má ráða aðdráttarafl nýju myntarinnar.

Sama vara hefur hingað til verið seld á misjöfnu verði í ríkjum bandalagsins. Með evrunni verður auðveldara fyrir neytendur að átta sig á slíkum verðmun. Það veldur þrýstingi í átt til jöfnunar á verði á lægri nótum þess. Verðhjöðnun verður því ein afleiðing evrunnar.

Sem dæmi um þetta má nefna rakvél, sem kostar 6300 krónur á Spáni, 7210 krónur í Hollandi, 8260 krónur í Þýzkalandi og 8680 krónur í Frakklandi. Verð slíkrar rakvélar mun hafa tilhneigingu til sameinast nálægt lægri brún þessa verðsviðs, neytendum til góðs.

Neytendur munu líka smám saman átta sig á heimatilbúnum vandamálum, sem fylgja því, ef eitt ríkir leyfir sér að leggja á hærri virðisaukaskatt en hin og hækkar þannig vöruverð í evrum umfram það, sem er í nágrannalöndunum. Þetta hvetur til skattalækkana.

Neytendur munu líka átta sig smám saman á öðrum heimatilbúnum vandamálum, sem fylgja sérstökum íþyngingarreglum eða samkeppnishömlum eins og þeim, að lyf eru í Þýzkalandi aðeins seld í lyfjabúðum og þá á hærra verði en í öðrum löndum bandalagsins.

Í kjölfar evrunnar verða framleiðsla og sala straumlínulagaðri í Evrópu en áður var. Fyrirtæki auka framleiðni sína til að geta staðlað verð sitt á lægri brún verðsviðsins. Ríkisstjórnir lækka skatta og fella niður samkeppnishindranir til að styggja ekki neytendur.

Evran mun frá fyrsta degi hennar bæta lífskjör í Evrópusambandinu. Fleira fólk mun hafa ráð á að kaupa sér lúxusvörur á borð við íslenzkan fisk. Gott efnahagsástand í Evrópu styrkir því markað fyrir afurðir okkar og bætir óbeint efnahagsástandið hér á landi.

Við förum hins vegar á mis við framleiðnihvetjandi og samkeppnishvetjandi afleiðingar evrunnar og munum dragast aftur úr nágrönnum okkar í samkeppnishæfni. Við fáum ekki sömu tæki í hendurnar til að bæta verðskyn okkar og skyn okkar á skatta og ríkishömlur.

Banka- og gjaldeyriskostnaður verður áfram hár hér á landi og vextir verða töluvert hærri en á meginlandi Evrópu. Þetta er fórnarkostnaður okkar af þeirri stefnu, að við séum svo sérstök þjóð með svo sérstakt atvinnulíf, að við þolum ekki aðild að Evrópusambandinu.

Þetta er gamalkunn minnimáttarstefna. Einu sinni fannst okkur, að við þyrftum að hafa margfalda gengisskráningu meðan aðrar þjóðir höfðu eitt gengi. Einu sinni fannst okkur, að við þyrftum að nota skömmtunarseðla eftir að aðrar þjóðir höfðu kastað þeim.

Við teljum okkur vera svo mikla álfa út úr hól, að við þurfum sérstaka vitringa á borð við Finn Ingólfsson og Þorstein Pálsson og Halldór Blöndal til að hugsa fyrir okkur og miðstýra meginþáttum atvinnulífs og viðskipta í stað þess að láta sjálfvirkni markaðarins ráða ferð.

Við missum því af lestinni, þegar þjóðir Vestur-Evrópu leggja frá sér mörk og franka og taka upp evru, mikilvægustu kaflaskil síðustu áratuga í álfunni.

Jónas Kristjánsson

DV