Eyðimörk á Íslandi.

Greinar

“Ég tel ástand Grímstunguheiðar vera orðið mjög alvarlegt og spurning, hvort það sé orðið það slæmt, að ekki verði hægt að bæta það aftur”, Þetta sagði nýlega í blaðaviðtali Larry Rittenhouse, prófessor í stjórnun beitilanda við Colorado-háskóla í Bandaríkjunum.

Í viðtalinu taldi Rittenhouse nauðsynlegt að takmarka búfjárfjölda á heiðinni og útiloka beit á sumum svæðum. Síðan sagði hann: “Ég held þó, að ekki einu sinni þessar aðgerðir dugi til að koma í veg fyrir, að gróður haldi áfram að eyðast, þangað til heiðin verður að verðlitlu beitilandi.”

Rittenhouse er ekki eini erlendi sérfræðingurinn, sem hefur lýst áhyggjum. Í doktorsritgerð Rainer Glawion við háskólann í Bochum í Vestur-Þýzkalandi er sagt, að sauðfé sé að breyta íslenzkum afréttum í eyðimörk. Búast megi við, að 80% þeirra verði orðnir ónýtir eftir 16 ár.

Um þetta sagði Hákon Bjarnason, fyrrum skógræktarstjóri: “Það er ekki nokkur vafi á því, að þetta er rétt í aðalatriðum. Það er ómögulegt að reikna út tímann nákvæmlega, en þess verður ekki langt að bíða, ef ofbeitinni verður fram haldið, að það verði ekkert nýtanlegt beitiland eftir.”

Hinir erlendu sérfræðingar þora að segja það, sem íslenzkir starfsbræður þeirra þora ekki vegna þrýstings frá sauðfjárræktarliðinu. Hinn óhugnanlegi sannleikur er, að íslenzkur heiðagróður er að hverfa vegna ágangs sauðfjár. Landið þolir ekki álagið.

Gróðurmælingar og gróðurkortagerð íslenzkra sérfræðinga hafa einnig bent í sömu átt. En hér á landi eru menn svo hræddir við landbúnaðarmafíuna, að þeir þora ekki að segja hreinskilnislega, að sauðfjárræktin sé að fara með Ísland til fjandans.

Hrun íslenzkra afrétta á síðustu áratugum stafar ekki af eldgosum eða hvassviðri. Munurinn á þessum árum og fyrri árum er, að um margra ára skeið hefur viðgengist að hafa um eða upp undir tvær milljónir sauðfjár á fjalli.

Hin miskunnarlausa eyðilegging Íslands stafar af því, að fyrir um aldarfjórðungi var komið upp sjálfvirku kerfi, þar sem ríkið tryggði sölu allra sauðfjárafurða, hversu mikið sem álagið á landið var aukið. Þetta er gert með niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum.

Þetta kerfi er enn í fullum blóma. Í sumar gerði Jón Helgason landbúnaðarherra samning fyrir hönd lands og þjóðar við forustumenn landbúnaðarins um, að framleiðsla sauðfjárafurða mætti haldast óbreytt og að öllu leyti á kostnað ríkisins. Ráðherrann gengur ennþá laus.

Eitt brýnasta framtíðarmál þjóðarinnar er að stöðva sauðfjárræktarliðið og bjarga landinu frá bráðri eyðingu. Það er hægt að gera með því að stöðva stuðning skattgreiðenda við landráðin, hætta niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum og öðrum styrkjum við sauðfjárrækt.

Mál þetta er enn brýnna fyrir þá sök, að risið hafa upp viðskiptasnillingar, sem telja sig geta selt íslenskt dilkakjöt á hærra verði til Bandaríkjanna. Ef þeim tekst það, má búast við, að nýtt framleiðsluæði grípi um sig í sauðfjárrækt og að gróðureyðing aukist hraðar en nú.

Að vísu er mikilvægt að hækka útflutningsverð íslenzkra afurða og minnka þannig útflutningsuppbætur þeirra. Enn mikilvægara og raunar margfalt mikilvægara er samt að viðurkenna, að sauðfjárrækt í núverandi magni er skaðleg iðja, sem étur höfuðstól Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV