Akureyri er skipulögð eyðimörk. Skást er suðurströnd Oddeyrar. Gömul hús eru þó víðar í þyrpingum. En miðbærinn er bastarður rétt eins og kvosin í Reykjavík. Hafnarstræti er skörðóttur hundskjaftur. Það er eini göngustubburinn í bænum, í hálfgerðum lundabúðastíl fyrir skipsfarþega með örvæntingarsvip. Það fallega við Akureyri er fyrst og fremst bæjarstæðið, sem tekur sig bezt út frá hlíðinni andspænis. Akureyri er semsagt bara fjarskafalleg. Hvorki Akureyri né Reykjavík standast nokkurn samanburð við Siglufjörð, sem er samstæð og firnasterk heild frá tímum einfaldrar húsagerðarlistar. Aðeins vantar verkstæði handverksmanna, þjónusta er sótt til Akureyrar.