Eyjabakkar eru skiptimynt

Greinar

Tvær helztu röksemdir nýskipaðs umhverfisráðherra fyrir því, að ekki þurfi umhverfismat fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar eru, að Samfylkingin sé klofin í málinu og að nokkrir leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi óbeint samþykkt virkjunina fyrir sex árum.

Kjarni málsins er einmitt sá, að fátt hefur breytzt hraðar en almannarómur í umhverfismálum. Fyrir nokkrum árum hafði umhverfið lítinn forgang og fólk vissi lítið um Eyjabakka, en nú hefur það séð kvikmynd um þá og veit, að þeim má alls ekki sökkva.

Siv Friðleifsdóttir ber jafnlitla virðingu fyrir rökum og umhverfinu. Meintur ágreiningur Samfylkingarinnar um málið felst í slæðingi af atkvæðum á Austfjörðum, sem hafa ekki einu sinni mann á þingi. Aðeins henni dytti í hug að flytja slík rök gegn umhverfismati.

Reynslan sýnir, að nýi umhverfisráðherrann er framgjarnari en títt er um stjórnmálamenn og er þá mikið sagt. Hún mun áreiðanlega fyrr eða síðar leggja til atlögu við orkumálaráðherrann um varaformennsku í Framsóknarflokknum, helzta óvini íslenzkrar náttúru.

Ef það hentar Siv að beita umhverfismálum í slagnum við Finn Ingólfsson, mun hún gera það. Ef það hentar henni að halda friðinn til að grafa undan honum, mun hún gera það. Í báðum tilvikum verða umhverfismálin afgangsstærð á framabraut ráðherrans.

Guðmundur Bjarnason var að því leyti skárri umhverfisráðherra, að hann skammaðist sín fyrir að þurfa að láta umhverfið víkja fyrir landbúnaði að kröfu Framsóknarflokksins. Honum leið svo illa út af þessu, að hann hætti hreinlega afskiptum af stjórnmálum.

Hann lenti hvað eftir annað í úlfakreppu milli stóriðjudrauma flokksins og skyldustarfa sinna sem ráðherra, eins og bezt kom í ljós í afskiptum hans af Ríó-samkomulaginu í umhverfismálum og Kyoto-bókuninni í beinu framhaldi. Hann gat í hvorugan fótinn stigið.

Hinn nýi umhverfisráðherra mun því miður ekki lenda í neinni slíkri úlfakreppu. Hún er áhugalaus í umhverfismálum, að öðru leyti en því sem sá málaflokkur kunni að varða tilraunir hennar til að komast upp fyrir orkumálaráðherra í goggunarröð Framsóknar.

Þeir, sem telja, að varðveita beri Eyjabakka eins og Þjórsárver, eiga því ekki aðeins mikið starf fyrir höndum, heldur harða baráttu. Framsóknarflokkurinn gefur ekki með góðu eftir molana, sem hrjóta af allsnægtaborði framkvæmda við orkuver og stóriðju.

Íslenzkt náttúruverndarfólk þarf ekki aðeins að halda vöku sinni, heldur taka upp andóf til að koma í veg fyrir, að Eyjabökkum verði sökkt sem skiptimynt í goggunarstríði ráðherra orku- og umhverfismála. Eyjabakkar verða ekki varðir með nokkrum ráðstefnum.

Framsóknarmenn munu rægja erlenda stuðningsaðila málsins á borð við World Wildlife Fund og kalla þá öfgahópa, sem ætli að segja Íslendingum fyrir verkum. Það mun falla í kram þjóðernissinnaðra öfgamanna, sem eru fjölmennir meðal kjósenda Framsóknarflokksins.

Staðan er verri en hún var fyrir kosningar. Samkvæmt ummælum umhverfisráðherra telja framsóknarmenn sig hafa upp úr kjörkössunum umboð kjósenda til að gera það, sem þeim þóknast gegn náttúru Íslands, þótt kannanir sýni stuðning fólks við Eyjabakka.

Fyrstu ummæli nýs umhverfisráðherra benda til, að baráttan gegn hinum pólitísku landeyðingaröflum þurfi að verða óvenjulega hörð á þessu kjörtímabili.

Jónas Kristjánsson

DV