Eyrarbyggð er bezt

Greinar

Þrjár leiðir þarf að fara samhliða til að draga úr líkum á mannskaða og eignatjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla á landinu. Þær miða í fyrsta lagi að verndun fólks á hættusvæðum, í öðru lagi að verndun mannvirkja og í þriðja lagi að mun strangari skipulagsreglum.

Meðan fólk býr í húsum, sem standa í brekkum undir bröttum fjallshlíðum, er einfaldast að herða á því ferli, sem leiðir til brottflutnings þess til hættuminni staða, þegar varað er við snjóflóðum. Í flestum tilvikum þarf að flytja fólk úr brekkuhúsum í hús úti á eyrum.

Þetta er gert núna. Um 800 Vestfirðingar hafa flutt úr húsum sínum til hættuminni staða. Þetta er engin óskalausn, en tekur þó tillit til fjárfestinga í húsum á glæfralegum stöðum. Með hertu og bættu mati á snjóflóðahættu er hægt að hindra mannskaða að verulegu leyti.

Jafnframt þessu þarf að reisa mannvirki til að verja sjálf brekkuhúsin. Of dýrt er að verja heilu byggðirnar á þennan hátt. En framkvæmanlegt er að reisa mannvirki, sem beina snjóflóðum eftir landslagi í aðra farvegi. Þarf þá oft að fórna sumum húsum fyrir önnur.

Fjármagna þarf kerfi, sem felur í sér, að keypt verði hús, sem verst standa, og jafnframt tryggt, að þau verði mannlaus. Snjóflóðum sé beint í átt til þeirra frá öðrum húsum, sem betur standa og áfram verður búið í. Í hverju byggðarlagi þarf að ganga skipulega að þessu.

Loks þarf að hætta að byggja hús í brekkum undir bröttum fjallshlíðum. Byggð í þröngum fjörðum á aðeins að vera úti á eyrum og við fjarðarbotna. Eyrarbyggð er betri kostur en botnabyggð vegna betri hafna. Í nágrenni Súðavíkur er til dæmis nokkuð góður staður á Langeyri.

Víðar á Vestfjörðum er hægt að nýta vanbyggðar eyrar til stækkunar á byggðum. Annars staðar verður hreinlega að hverfa frá einnar eða tveggja hæða húsum og byggja háhýsi úti á eyrum til að geta dregið byggðina úr hættulegum brekkum út á tiltölulega öruggt land.

Fyrr á öldum var fjarðarbyggð einkum úti á eyrum og við fjarðarbotna. Það byggðist á reynslu kynslóðanna. Fólk vissi, að hætta á snjóflóðum og skriðuföllum var einkum í brekkunum milli eyra og botna. Þannig vörðust forfeður okkar óviðráðanlegum náttúruöflum.

Fyrr á öldum og áratugum voru aðeins skráð í heimildir þau snjóflóð, sem féllu á byggð og ollu tjóni. Hin voru ekki skráð, af því að enginn vissi af þeim eða af því að þau skiptu ekki máli. Snjóflóðamat, sem byggist á sagnfræðilegum heimildum, hefur vanmetið brekkusvæðin.

Mestum árangri með minnstum kostnaði má ná með því að fara allar þrjár leiðirnar samhliða. Síðasta leiðin horfir til framtíðar, af því að hún fjallar um hús og önnur mannvirki, sem enn eru ekki risin. Hún er bezt, en dugar ekki ein, af því að lausnir þarf hér og nú.

Önnur leiðin felur í sér ný varnarmannvirki og nýtt áhættumat, sem saman fela í sér, að fjárfestingu í sumum húsum verði fórnað til að vernda fjárfestingu í öðrum. Bæta verður húsin, sem fórnað verður. Þessi lausn tekur líka tíma, en ekki eins langan og framtíðarlausnin.

Sú leið, sem fyrst var nefnd, er raunar þegar hafin. Fólk flytur úr húsum sínum, þegar hætta er á ferðum. Bæta þarf þá lausn með virkara aðvörunarkerfi og harðara mati á, hver séu hættusvæðin. Þetta kostar ekki annað en bættar almannavarnir og töluvert umstang.

Reynslan er til að læra af henni. Harmleikurinn í Súðavík á að vera okkur hvatning til að taka af festu og hraða á hættunni af snjóflóðum og skriðuföllum.

Jónas Kristjánsson

DV