Frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal um Eyvindarkofaver að þjóðvegi 910 norðaustan við Eyrarselsvatn á Fljótsdalsheiði.
Hrafnkels saga Freysgoða segir, að utan á Eyvindarfjöllum hafi Eyvindur Bjarnason, bróðir Sáms, fallið fyrir Hrafnkeli Freysgoða við Eyvindartorfu og sé þar heygður. Í Hrafnkelsdal hafa fundizt leifar byggðar á tuttugu stöðum. Talið er, að öll byggðin hafi farið í eyði um langt árabil við eldgos við Veiðivötn á síðari hluta 15. aldar. Á síðari árum útlegðar sinnar er sagt, að Fjalla-Eyvindur hafi um skeið hafzt við í Eyvindarkofaveri hjá Eyvindarfjöllum og lagzt á fé bænda. Þeir hafi farið að honum, en hann komist undan á handahlaupum. Festust hestar þeirra í Eyvindarkeldu og slapp hann við svo búið. Örnefnin á svæðinu eru þó fremur kennd við Eyvind, bróður Sáms í Hrafnkels sögu Freysgoða.
Förum frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal austur yfir Hrafnkelu og áfram austur á brattann og beygjum suður fyrir Háurð. Síðan suðaustur um Skál að Hölkná og nokkurn spöl suður með ánni. Síðan aftur suðaustur í Fjallaskarð í Eyvindarfjöllum. Austan skarðsins er fjallakofinn Fjallaskarð við Eyvindarkofaver. Við förum austsuðaustur að þjóðvegi 910 á Fljótsdalsheiði.
20,0 km
Austfirðir
Erfitt fyrir göngufólk
Skálar:
Fjallaskarð: N65 01.685 W15 22.312.
Nálægar leiðir: Fljótsdalsheiði, Vegkvíslar, Sænautasel, Aðalbólsleið, Kárahnjúkar.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort