Times Square
Við hefjum sjöttu ferð á Times Square, miðpunkti leikhús-, bíó- og klámhverfis borgarinnar. Við lítum yfir auglýsingaskiltin og hina löngu biðröð við leikhúsmiðasöluna TKTS við Father Duffy Square.
Síðan göngum við norður eftir Broadway, sem er ás þessa hverfis. Á vinstri hönd er Marriott-hótelið, sem reynir að mynda virðuleika í annars glannalegu hverfinu. Á daginn er þetta svæði fremur hráslagalegt, en eftir sólarlag verður það að neonljósa-draumaheimi.
Í hliðargötunum eru leikhúsin hlið við hlið, samtals 42 að tölu, flest milli 7th og 8th Avenues. Hins vegar er lítið um sómasamleg veitingahús. Ágætar pylsur fást hjá Nathan’s Famous og grísk mússaka á Pantheon. Aðeins norðar er betra fæði í nokkrum veitingahúsum, sem getið er framar í þessari bók, Café des Sports, Siam Inn, Tastings I og Russian Tea Room.