Færeyingar eru sökudólgar

Greinar

Færeyskir þingmenn hafa löngum haft oddaaðstöðu á danska þinginu. Þeir hafa selt dýrum dómum stuðning sinn við ríkisstjórnir með tæpan þingmeirihluta. Gjaldið fyrir þjónustuna hefur falizt í síauknum styrkjum og fyrirgreiðslum danska ríkisins til Færeyja.

Raunverulegir sökudólgar í bankasukki Færeyja eins og í öðru efnahags- og fjármálasukki eyjanna eru Færeyingar sjálfir. Þeir endurkjósa í sífellu sníkjustefnu Sambandsflokksins og smábyggðastefnu Jafnaðarflokksins, sem hafa komið þeim á kaldan klaka.

Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ber pólitíska ábyrgð á einum þætti málsins. Hann tók vitandi vits hinn gjaldþrota Færeyjabanka af herðum Den Danske Bank og laug honum upp á færeysku landsstjórnina, sem skorti upplýsingar um stöðuna.

Rasmussen er ekki af þeirri tegund stjórnmálamanna, sem axlar ábyrgð, og því mun hann ekki segja af sér. Um þessar mundir er hann að reyna að ýta sínum ábyrgðarhluta yfir á Den Danske Bank, sem nú mun réttilega neyðast til að endurgreiða færeyska landssjóðnum.

Þótt forsætisráðherra Danmerkur og bankastjórar Den Danske Bank hafi verið afhjúpaðir, breytir það ekki þeirri staðreynd, að Færeyjabanki varð upprunalega gjaldþrota vegna þess, að Færeyingar misstu samband við raunveruleikann í fjármálum og efnahagsmálum.

Færeyska sníkjustefnublaðið Dimmalætting hefur áratugum saman verið samnefnari ranghugmyndanna, sem komu Færeyjum á kaldan klaka. Af lestri blaðsins fengu Færeyingar þá flugu í höfuðið, að peningar kæmu fyrirvaralaust í skæðadrífum frá Danmörku.

Þannig voru grafin jarðgöngin frægu og þannig er enn verið að ráðgera ný jarðgöng. Þannig voru byggðir upp flotar fiskiskipa, sem ekkert höfðu að veiða, því að Færeyingar hafa ekki haft bein í nefinu til að koma sér upp virku skömmtunarkerfi á borð við aflakvóta.

Árið 1988 var svo komið, að önnur hver króna í sjávarútvegi Færeyja kom frá hinu opinbera, rétt eins og í landbúnaðinum á Íslandi. Færeyskum sjávarútvegi var breytt úr atvinnuvegi í félagsmálastofnun. Hrun Færeyjabanka var ein af mörgum afleiðingum þessa.

Færeyskir útgerðarmenn, fiskvinnslumenn, endurskoðendur, stjórnmálamenn og ritstjórar tóku höndum saman um að reisa fyrir danska peninga efnahagslega spilaborg, sem var hrunin um áramótin 1992­1993, þegar danska samsærið var gert um Færeyjabanka.

Sumir Færeyingar, einkum af yngri kynslóðinni, sáu veruleikann að baki blekkinganna, svo sem Jógvan Mørkøre og Eðvard T. Jónsson. Ekki var hins vegar hlustað á slíka. Í síðustu lögþingskosningum voru endurkosnir hinir gömlu sukkarar gömlu sukkflokkanna.

Það mun lina efnahagsþjáningar Færeyja um stundarsakir, þegar Den Danske Bank endurgreiðir milljarðana, sem Poul Nyrup Rasmussen hafði af þeim. Varanleg lækning fæst þó ekki á færeysku veikinni fyrr en Færeyingar láta af sníkju- og smábyggðastefnu.

Færeyingar þurfa að venja sig af því að þiggja mola af borði dansks velferðarkerfis. Þeir þurfa að koma upp virku skömmtunarkerfi í fiskveiðum. Þeir þurfa að læra að skilja verðgildi peninga. Fyrst og fremst þurfa þeir þó á rjúfa samkrull stjórnmála og sjávarútvegs.

Þótt einstaka sökudólga megi finna í dönskum stjórnmálum og peningastofnunum, hljóta færeyskir kjósendur að teljast hættulegasti sökudólgurinn.

Jónas Kristjánsson

DV