Færeyjagengið á ferð

Greinar

Færeyjagengið er að færa sig upp á skaftið á Íslandi. Það hefur virkjað efasemdir veðurfræðinga og vatnalíffræðinga um aðferðir Hafrannsóknastofnunar. Það hefur flutt frumvarp á Alþingi um afnám aflahámarks á nokkrum tegundum og um rýmri heimildir til veiða á þorski.

Markmið Færeyjagengisins er að fá að veiða meira hér og nú. Í forustu fyrir því fer grátkór Vestfirðinga, sem hafa átt erfiðara en aðrir með að laga sig að minnkandi þorskstofni. Þeir vilja fá verðlaun fyrir að hafa ekki getað treint þorskkvótann eins vel og aðrir sjómenn.

Þetta lið má réttilega kalla Færeyjagengi, því að það vill í raun fara þá leið, sem gert hefur Færeyinga gjaldþrota. Færeyingar komu sér ekki upp kvótakerfi eins og við og þeir hafa alls ekki rætt veiðileyfasölu, sem hefur verið ofarlega í íslenzkri þjóðmála- og efnahagsumræðu.

Þorskafli Færeyinga hefur hrunið í kjölfar ofveiðinnar. Þetta hefur síðan leitt til hruns efnahagslífsins. Þeir hafa orðið að segja sig til sveitar í Danmörku og lifa nú frá degi til dags á bónbjörgum frá dönskum stjórnvöldum, sem helzt af öllu vildu losna við Færeyjabölið.

Ef róttækur veiðiskapur að færeyskum hætti heldur innreið sína í landhelgi Íslands, hrynur þjóðfélagið hér á sama hátt og hið færeyska. Við erum svo háð sjávarútvegi, að við höfum ekki ráð á að prófa kenningar íslenzka Færeyjagengisins og fræðimanna á þess vegum.

Fréttaritið Economist gerði ofveiði að forsíðuefni 19. marz. Þar var bent á, hvernig þorskafli hefur hrunið af völdum ofveiði hjá hverju ríkinu á fætur öðru. Bandaríski aflinn hefur hrunið úr 800 þúsund tonnum í tæp 50 þúsund. Þorskveiði Kanadamanna hefur lagzt niður.

Í engu tilviki er um að ræða, að láðst hafi að grisja stofninn í samræmi við kenningar vatnalíffræðinga íslenzka Færeyjagengisins. Í öllum tilvikum hafa menn hamast á fiskistofnum með sífellt betri búnaði, unz þeir þoldu ekki álagið, samanber íslenzk-norsku síldina.

Economist benti líka á, að veiðibann og strangar takmarkanir hefðu bætt stöðuna á nokkrum stöðum. Nokkurra ára veiðibann á Norðursjávarsíld stækkaði stofninn úr 52 þúsund tonnum í 646 þúsund tonn. Framseljanlegir veiðikvótar treystu stofna við Nýja-Sjáland.

Til bjargar fiskistofnum jarðar leggur Economist annars vegar til framseljanlega aflakvóta að íslenzkum hætti og hins vegar veiðileyfagjald eða auðlindaskatt á sama hátt og hefur verið í umræðunni hér á landi, en ekki náð fram að ganga vegna fyrirstöðu grátkóra og þrýstihópa.

Hin ítarlega frásögn í Economist af breytingum á fiskistofnum um allan heim og tillögur blaðsins til úrbóta eru drjúgur stuðningur við þá skoðun, að skynsamlegt sé að mæta minnkun fiskistofna með skerðingu á aflakvótum og að hefja sköttun á hinni takmörkuðu auðlind hafsins.

Þverstæðuna við sjónarmiðin í Economist má sjá í kenningum þess stjórnmálamanns í Færeyjum, sem mesta ábyrgð ber á hruni færeyska þjóðfélagsins, Atla Dam, fyrrverandi lögmanns. Hann ber enn höfðinu við stein á svipaðan hátt og íslenzka Færeyjagengið.

Atli Dam berst gegn framseljanlegum kvótum í Færeyjum og segir sölu veiðileyfa ekki koma til álita. Þannig átti hann þátt í að koma Færeyjum á kaldan klaka. Sú hin sama yrði niðurstaðan hér, ef tekið yrði mark á íslenzka Færeyjagenginu og fræðimönnum á þess vegum.

Þótt fræði Hafrannsóknastofnunar séu götótt, er samt ljóst, að leyfður afli við Ísland er án svigrúms, á ýmsum sviðum í hámarki og á öðrum sviðum yfir hámarki.

Jónas Kristjánsson

DV