Þótt orsakir færeyska hrunsins séu svipaðar erfiðleikum Íslands, er mikill þyngdarmunur sjáanlegur. Færeyingar hafa gengið miklu hraðar og lengra í glötunarátt. Þar skuldar hvert mannsbarn sem svarar 1,8 milljón íslenzkum krónum, en hér 0,9 milljónir.
Mestu munar, að tíu ára fjárfestingaræði rann á Færeyinga, en stórsjóða-ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var aðeins við völd í þrjú ár. Hún kom að vísu upp kerfi atvinnutryggingarsjóða að færeyskum hætti, en hafði ekki tíma til að ganga eins langt.
Þótt núverandi ríkisstjórn Íslands sé gallagripur, hefur hún sér til málsbóta, að hún hefur vikið okkur af færeysku leiðinni og stefnir í aðrar áttir. Það mun henni takast í þeim mæli, sem henni tekst að koma í veg fyrir skuldaaukningu upp úr 0,9 milljónum á mann.
Færeyska hrunið er afar lærdómríkt fyrir okkur. Við sjáum þar afleiðingar ýmissa gæluhugmynda, sem löngum hafa tröllriðið okkur, einkum framsóknarmönnum helztu íslenzku Framsóknarflokkanna, hvaða nafni sem þeir nefnast. Við eigum nú að geta varað okkur á þeim.
Byggðastefna er alfa og ómega færeyska hrunsins. Byggðastefna í ótal myndum var forsenda vandræðanna, sem hrifsuðu sjálfstæðið úr höndum Færeyinga. Frægustu dæmin eru jarðgöng, jafnvel fyrir 25 manna byggð og allt niður í jarðgöng fyrir sauðfé.
Sumir muna, hversu hrifnir Steingrímur Sigfússon, jarðgangaráðherra Steingríms Hermannssonar, og þúsundir annarra íslenzkra framsóknarmanna voru af framtaki Færeyinga á þessu sviði. Þeir sögðu, að við hlytum að geta þetta, úr því að Færeyingar gætu það.
Hafnir voru smíðaðar og fiskvinnslustöðvar reistar fyrir hverja byggð í Færeyjum, jafnvel þótt 400 manns byggju á öðrum staðnum, 600 manns á hinum og sjö kílómetra malbiksbraut væri á milli. Smábyggðastefna okkar var barnaleikur í samanburði við þá færeysku.
Við megum samt ekki gleyma, að við höfum lengi rekið þessa sömu stefnu, en bara ekki haft ráð á að reka hana eins hart og Færeyingar gerðu í skjóli danskra peninga. Við erum enn haldin þeim órum, að frysta eigi byggð, ekki leyfa neina umtalsverða röskun hennar.
Ekki eru mörg ár síðan framsóknarmenn allra íslenzku Framsóknarflokkanna töluðu og skrifuðu um færeyska undrið. Þar var þjóð með reisn, sem hafði kjark til að leggja fé í að byggja upp samgöngur og atvinnulíf um allt land. Færeyjar voru draumalandið.
Færeyingar gátu greitt tvöfalt verð fyrir afla upp úr sjó og gátu greitt fólki tvöföld laun, þótt þeir seldu á vegum íslenzkra útflutningssamtaka. Þeir bjuggu við helmings vöruverð og helmings skatta á við Íslendinga. Af hverju getum við þetta ekki? spurðu menn.
Nú er skýringin komin í ljós. Færeyingar lifðu ekki bara um efni fram eins og Íslendingar, heldur lifðu í samfelldri veizlu. Meðan Íslendingar misstu aldrei alveg sambandið við veruleikann, lifðu Færeyingar algerlega utan hans, ekki sízt helztu pólitíkusar eyjanna.
Á sama tíma og Halldór Ásgrímsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra okkar, tók mikið mark á fiskifræðingum, tóku færeyskir ráðherrar alls ekkert mark á neinum aðvörunum um ofveiði. Þeir hafa allan þennan tíma verið ríflega steingrímskir í stórhug og bjartsýni.
Ógæfa Færeyinga verður vafalaust til þess að fæla íslenzka stjórnmálamenn frá taumlausri byggðastefnu, stórhug og bjartsýni. Eins dauði er annars brauð.
Jónas Kristjánsson
DV