Ríkisstjórnin hyggst færa vandamál, en ekki leysa þau. Hún hyggst auka lántökur í útlöndum til að létta óhóflegum þrýstingi ríkisins af innlendum lánamarkaði og fá vexti lækkaða. Þar með munu aukast skuldir okkar við umheiminn og voru þær þó allt of háar fyrir.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í lánamálum ríkisins stefna að tveggja prósentustiga lækkun vaxta, meðal annars með slíkri lækkun vaxta á ríkisskuldabréfum. Þær fela í sér, að ríkisstjórnin ætlar ekki að taka dýrari lán á innlendum markaði en sem nemur 5% raunvöxtum.
Þar sem ríkið er fyrirferðarmesti aðilinn á lánamarkaði landsins, eru töluverðar líkur á, að ríkisstjórninni takist að knýja markaðinn í heild til að fylgja í kjölfarið. Bankarnir munu lækka sína vexti, enda hafa þeir að undanförnu kennt ríkinu um háa vexti í landinu.
Aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið vel í aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem þannig stuðla að vinnufriði í landinu. Þær auka líkur á, að samtök launþega sætti sig við vanefndir ríkisstjórnarinnar á ýmsum þáttum þjóðarsáttar og gætu þannig gefið stjórninni svigrúm.
Allt er þetta sjónhverfing, því að ríkisstjórnin hyggst ekki draga úr óhóflegri lánsfjárþörf sinni. Hún ætlar að taka lán á erlendum vettvangi í staðinn fyrir innlend lán. Hún hyggst færa sig milli lánamarkaða, en ekki minnka umsvif sín eða fyrirferð í þjóðfélaginu.
Það, sem raunverulega gerist, er, að þjóðin fær tækifæri til að lifa í auknum mæli um efni fram. Reikningurinn fyrir vaxtabreytingunni verður sendur þjóðinni eftir nokkur ár, þegar byrja á að endurgreiða skuldir, sem stofnað verður til í útlöndum vegna breytingarinnar.
Rökstyðja má, að þetta sé nauðsynlegt, því að eðlilegt sé að brúa erfið ár með lánum, sem verði endurgreidd í betra árferði. Sjávarafli kann að aukast að nýju eftir nokkur ár og gera þjóðinni kleift að standa undir meiri skuldum en hún getur í núverandi aflabresti.
Á hitt ber svo að líta, að aflabresturinn er alls ekki eins mikill og búizt var við. Veiðar utan landhelgi á þorski, karfa og rækju hafa snögglega aukizt og loðnuveiði blómstrar. Þetta eykur tekjur þjóðarinnar um fjóra milljarða á ári og munar örugglega um minna.
Gallinn við erlendu lánin er, að ríkisstjórnin er þegar búin að fullnýta þá leið. Hún hefur þegar magnað skuldabyrði þjóðarinnar grimmdarlega. Greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum var um og innan við 20% útflutningstekna frá 1985 til 1990, en er nú að fara í 36%.
Greiðslubyrðin var 23% árið 1991, 26% árið 1992, 29% árið 1993 og hefði að óbreyttu orðið 36% á næsta ári. Með auknum lántökum ríkisins í útlöndum fer talan upp í 40% útflutningstekna árið 1995. Það þýðir, að þá hefur greiðslubyrði þjóðarinnar tvöfaldazt á fimm árum.
Fyrir þremur árum fóru tveir þorskar af hverjum tíu í að standa undir skuldum okkar í útlöndum. Eftir tvö ár fara fjórir þorskar af hverjum tíu í skuldahítina, enda verður þá ekki enn komið að þeim aukna sjávarafla, sem menn vona, að verði um eða undir næstu aldamót.
Tvöfölduð skuldabyrði er geigvænleg tilhugsun öllu hugsandi fólki, þótt málsvarar banka, atvinnulífs og launafólks lofi aðgerðirnar og sumir hverjir hástöfum. Þannig fer stundarfróun með stuðningsmenn skammtíma og sjónhverfinga, sem telja frest á illu beztan.
Leiðin, sem ríkisstjórnin hefur valið, er ekki ný af nálinni í okkar heimshluta. Hún var notuð í Færeyjum með geigvænlegum afleiðingum. Þetta er færeyska leiðin.
Jónas Kristjánsson
DV