Færiband á fullu

Greinar

Ráðherrar hafa á eigin spýtur ákveðið á síðustu fjórum vikum tæpum að taka af fé skattgreiðenda einum milljarði króna meira en nýlega samþykkt fjárlög ríkisins leyfa. Þetta er jafnmikið af ólöglegum umframgreiðslum til landbúnaðar og á öllu síðasta ári.

Þannig er ríkisstjórnin að magna ósið og ólög, sem ekki ætti að vera unnt að gera í þingræðisríki. Ef svo fer, sem horfir, er tímabært að leggja formlega niður fjárveitingavald Alþingis og taka upp beinar ákvarðanir úr rentukammeri, svo sem og tíðkuðust fyrr á öldum.

Sumar af þessum ákvörðunum ráðherra yrðu líklega samþykktar af Alþingi, ef það væri spurt, áður en það er orðið of seint. Það væri því hægt að gera þær löglegar á þeim tíma ársins, er þing situr að störfum. Í þinghléi mætti leita samþykkis fjárveitinganefndar.

Heyrst hefur, að Alþingi sé starfrækt þessa dagana og ræði ýmis smámál. Þess vegna hefðu ráðherrar getað farið hina löglegu leið að leggja fyrir þingið frumvörp um aukafjárveitingar upp á einn milljarð króna til loðdýraeldis, jarðræktar og sölueflingar búvöru.

Ráðherrar hafa sér til afsökunar, að sá aðili, sem samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins fer með fjárveitingavaldið, hefur ekki hreyft andmælum gegn hinni ólöglegu málsmeðferð. Þannig samþykkja alþingismenn í raun með þögninni, að ekki sé farið að lögum.

Stundum er lögbrotið alvarlegra. Í vöxt færist, að ráðherrar ákveði að verja fé skattgreiðenda til athafna, sem Alþingi hefur áður fjallað um og ekki treyst sér til að gera. Talið hefur verið saman, að í fyrra greiddu ráðherrar 625 milljónir króna gegn vilja Alþingis.

Ráðherrar hafa líka afsökun í þeim tilvikum, þótt hún sé ekki eins haldgóð. Svo virðist nefnilega, að þingmenn geri sér ekki heldur rellu út af þeim greiðslum, sem Alþingi hafði áður hafnað. Þannig hafa þingmenn óbeint helgað hin verri brot á verkskiptingu stjórnvalda.

Það eru engar smáupphæðir, sem hirtar eru af skattgreiðendum, án þess að fjárveitingavaldið hafi gefið leyfi til þess. Það eru þúsund þúsundkallar í einni milljón króna og þúsund milljónkallar í einum milljarði króna. Þetta er enginn smáþjófnaður framkvæmdavaldsins.

Og þessi heili milljarður er ekki samanlögð summa ólöglegra útgjalda ríkisstjórnarinnar. Hann er ekki annað en tæplega fjögurra vikna umframútgjöld ábyrgðarlítilla ráðherra til aðeins eins málaflokks, varðveizlu ofbeitar á landinu og úreltra atvinnuhátta í landbúnaði.

Þegar hefur verið gefið í skyn, að vænar slummur þurfi til viðbótar, svo að unnt sé að gefa útlendingum matinn, sem ekki er unnt að troða ofan í þjóðina með verðlækkunum, sem skattgreiðendur eru látnir borga. Í þessu gæti leynzt hálfur milljarður til viðbótar.

Áður en að því kemur, eru framlög skattgreiðenda til landbúnaðar komin upp í sjö milljarða króna á þessu ári. Það jafngildir einni milljón og sex hundruð sextíu og sjö þúsund krónum á hvern hinna 4.300 bænda í landinu. Og allt er þetta ákveðið á færibandi.

Skynsamlegra væri, að allar ákvarðanir, sem kosta milljónir, yrðu teknar af Alþingi eftir að hafa fengið þar eðlilega umræðu. Þá gæti fólkið í landinu fengið að heyra meira af röksemdunum að baki útgjaldanna og áttað sig betur á, hvaða þingmenn styðja ósómann.

Brýnt er orðið, að Alþingi endurheimti fjárveitingavaldið úr höndum hóflauss framkvæmdavalds og sanni þannig tilverurétt sinn, sem ella má draga í efa.

Jónas Kristjánsson

DV