Fagurt útsýni í Vonarskarði

Hestar

Kristjana og Baltasar Samper:

Við lögðum af stað frá Skógarhólum, þar sem menn og hestar höfðu safnast saman. Þetta voru sex manns með 28 hesta og svo tveir í trússi. Ferðinni var heitið upp á Kjöl og Sprengisand og síðan í Vonarskarð suður með Vatnajökli í Langasjó og síðan vestur Landmannaleið til baka. Þetta átti að vera tveggja vikna ferð.

Listafólkið Kristjana og Baltasar Samper segja blaðamanni Eiðfaxa frá einni af langferðum þeirra um landið á rúmlega þriggja áratuga ferli þeirra á þessu sviði. Þau fóru þessa ferð í júlí árið 1996 með Karli Benediktssyni, Margréti Grettisdóttur, Gretti Björnssyni, og Þorvaldi Þorvaldssyni. Í trússinu voru Halldóra Guðnadóttir og Sigurður Ingi Sveinsson.

Fyrsta dagleiðin var riðin austur frá Skógarhólum um Eyfirðingaveg til Hlöðufells og síðan áfram um línuveginn austur á Kjalveg og honum fylgt að Fremstaveri undir Bláfelli. Þessi langa dagleið er gott dæmi um, að ekki verður öllum hent eða að skapi að láta hross sín feta í fótspor þessa vaska ferðahóps.

Frá Fremstaveri var farin venjuleg reiðleið austur fyrir Bláfell upp á Hvítárbrú og síðan í Árbúðir skálann norðan við Hvítárvatn. Þessi hópur miðar dagleiðir eftir aðstæðum fyrir hross, og notar skála aðallega til matseldar þar sem þeim er fyrir að fara en hefur þar að auki gott eldhústjald, og gistir að mestu leyti í tjöldum, sem auðvitað gefa meira svigrúm í vali og skiptingu dagleiða.

Leiðin frá Árbúðum lá síðan upp með Svartá í Svarárbotna á Kili og síðan farið til austurs yfir þjóðveginn á leiðina yfir brúna á Jökulfalli til gistingar á tjaldstæði í Kerlingafjöllum. Þaðan var síðan farið norður fyrir Kerlingafjöll að jeppaskálanum Setri og þaðan riðið eftir kompás að skálanum í Tjarnarveri.

Næsta dagleið var um Arnarfell í Nýjadal. Farið var frá Tjarnaveri hefðbundna reiðleið að Nautaöldu, síðan fyrir Múlajökul. Þegar komið var að Arnarfellskvísl var hún í miklum vexti upp á miðjar síður. Sama var að segja um Þjórsárkvíslar austan Arnarfells unz komið var að vaðinu í Þjórsá sjálfri, sem var frekar vatnslítil.

Austan Þjórsár var fljótlega komið norðan Háumýra upp á gamla Sprengisandsveginn, sem fylgt var tvo-þrjá kílómetra til suðurs að afleggjaranum til Nýjadals. Þaðan er nokkuð löng leið með afleggjaranum til náttstaðar. Þar skildi hópurinn við hefðbundnar reiðleiðir, því að næst átti að fara í Vonarskarð og suður með Vatnajökli.

Fyrst var riðið frá skálanum austur Nýjadal og síðan upp hlíðar hans í skarðið suð-vestan Eggju, þaðan sem er voldugt útsýni, og stefnt á Deili í Vonarskarði, farið vestur fyrir hann og síðan riðið vestur Tvílitskarðs milli Skrauta í norðri og Kolufells í suðri. Úr skarðinu var mikilfenglegt útsýni vestur yfir Kvíarvatn til Hofsjökuls.

Frá Kvíarvatni var riðið norðan Kvíslarhnjúka austan við Nyrðri-Hágöngur að Syðri-Hágöngum, þar sem við gistum. Þetta var ákaflega fallegt svæði með miklum hverum, Fögruhverum. Vegna virkjana er þetta svæði allt núna komið undir Hágöngulón, þar á meðal leiðin, sem við riðum við Kvíslarhnjúka og Hágöngur. Þessi leiðarlýsing getur því ekki orðið forskrift fyrir aðra hestamenn.

Þessa nóttina sváfum við lítið vegna spennings, því að snemma morguns þurftum við að reyna að leggja í Köldukvísl. Restin af ferðinni var háð því, að við kæmumst yfir ána. Við komumst klakklaust yfir ána, sem var þung, og riðum austur með Sveðju upp að Köldukvíslarjökli í Vatnajökli.

Þar beygðum til hásuðurs undir fjöllunum og riðum milli hrauns og hlíða, vestan við Bryðju, milli Surts og Hraungils, yfir Sylgju að Innri-Tungnaárbotnum. Við fylgdum síðan hraunjaðrinum við Jökulgrindur að skálanum í Jökulheimum, þar sem við höfðum tveggja nátta stað.

Eftir hvíldardag í Jökulheimum riðum við yfir Tungnaá á breiðu vaði sunnan við Botnaver, fórum þvert yfir Tungnaárfjöll að Skeiðará nokkru innan við Langasjó. Við tókum krókinn austur fyrir Fögrufjöll, kringum enda þeirra í Skaftárfelli, milli ár og fjalla. Vegna eldgosa og flóða rann áin ekki eins og á korti, heldur þétt upp með Fögrufjöllum.

Þarna lentum við í miklum vandræðum í skriðum milli Fögrufjalla og Skeiðarár. Við misstum hrossin tvisvar upp á fjöll og urðum að hrekja þau niður að ánni, þar sem var eina færa leiðin. Á einum stað rann skriða undan fótum Kristjönu sem lenti úti í ánni, en gat haldið sér í hestinn, og klórað sig upp úr ánni aftur.

Fljótlega fórum við yfir Útfall, þar sem rennur úr Langasjó í Skeiðarár, fórum yfir Fögrufjöll norðvestur að Langasjó og riðum gígana suðaustan við vatnið, sums staðar í flæðarmáli eða úti í vatninu. Þetta er ákaflega fallegt og einstætt land, sem nú er verið að ræða um að setja undir miðlunarlón. Við enduðum svo atburðaríkan dag með því að slá upp tjöldum við vesturenda vatnsins undir Sveinstindi.

Hér vorum við aftur komin á hefðbundnar slóðir, riðum daginn eftir með jeppaslóð suðvestur í Hólaskjól, þar sem nútíminn tók á móti okkur með sturtum og öðrum lúxus. Þaðan héldum við síðan vestur Landmannaleið með næturstöðum í Landmannahelli og Áfangagili og loks um Rjúpnavelli niður í Skarði í Landssveit.

Þar lauk ferðinni, án þess að neitt alvarlegt hefði komið fyrir, varla farið skeifa undan hrossi. Sólskin fylgdi hópnum mest allan tímann og gerði ferðina mun auðveldari en verið hefði í sudda eða hvassviðri með litlu skyggni. Við höfðum fengið færi á að sjá tilkomumikil landsvæði, þar sem þarfasti þjónninn er bezta samgöngutækið.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 2.tbl. 2005