Faktúru-Fölsunar-Félagið.

Greinar

Hundrað Þúsund Naglbítar, öðru nafni Bítar, sat í New York og rak Snorra-Eddu, öðru nafni Faktúru-Fölsunar-Félagið. Svo segir Halldór Laxness í Atómstöðinni. Hin ábatasama iðja er þannig orðin fræg í bókmenntasögu landsins, hvort sem menn líta á það í gamni eða alvöru.

Faktúrufölsun höfðar greinilega til Íslendinga, svo sem sjá má af fréttum undanfarinna vikna. Sennilega líta menn hana ekki mjög alvarlegum augum, enda eru raunar ekki nema peningar í húfi. Og alténd lítur ríkisvaldið misjöfnum augum á faktúrufölsun, eftir því hver á í hlut.

Fyrir nokkrum árum voru menn dæmdir til nokkurra mánaða fangelsisvistar fyrir að gefa upp of hátt kaupverð á skipi. Nú er kominn á kreik grunur um, að greitt hafi verið minna fyrir olíuskipið Kyndil en gefið var upp í fyrstu fréttum af kaupunum.

Ekkert hefur sannazt í máli þessu. Eðlilegt væri, að ríkið léti rannsaka það. Jan I. Eliassen hjá Norges Handels- og Sjöfartstidende telur, að kaupverð skipsins hafi verið 112 milljónir króna, en ekki 123 milljónir. Þarna munar töluverðu, ellefu milljónum.

Raunar telur Eliassen, að lægra kaupverðið sé of hátt miðað við markaðinn. Systurskip Kyndils hefur verið boðið til kaups á 89 milljónir króna. Talið er, að það fari á enn lægra verði. En olíufélögin eru svo fín fyrirtæki, að þessi mál má ekki einu sinni skoða.

Virðulegasta faktúrufölsunarfélagið er Samband íslenzkra samvinnufélaga. Það hefur í London sérstakan kontór, sem býr til reikninga. Frægustu reikningarnir þaðan fjalla um kaffibaunir, sem hækkuðu úr 427 milljónum króna upp í 650 milljónir eða um 223 milljónir.

Af því að Sambandið er svo fínt fyrirtæki, var ekki óskað eftir gæzluvarðhaldi neins og ekkert bókhald gert upptækt. Sambandið fékk í rólegheitum að endurgreiða Kaffibrennslu Akureyrar verulegan hluta 223 milljónanna, sem skattrannsóknarstjóri fann af tilviljun.

Samt virðist augljóst, að Sambandið hafi brotið gjaldeyrislög og hugsanlega líka bókhalds-, skatta-, verðlags- og samvinnufélagalög. En málið er leyst með því að leyfa Sambandinu að láta það ganga til baka.

Önnur voru viðbrögðin, þegar smákarl í faktúrufölsun var tekinn í síðustu viku. Hann fór beint í gæzluvarðhald og bókhaldið var gert upptækt. Þannig finnst hinu opinbera stundum, að faktúrufölsun sé alvarlegt mál, en stundum líka, að hún sé bara gamanmál.

Mismunurinn virðist ekki fara eftir upphæðunum, sem í húfi eru. Hann virðist fremur fara eftir því, hversu fín og virðuleg fyrirtækin eru. Olíufélögin og Samband íslenzkra samvinnufélaga komast greinilega í efri flokkinn, þar sem ekkert rangt er gert.

Telja má það gat í kerfinu, að Samband íslenzkra samvinnufélaga geti lent í úrtaki hjá skattrannsóknarstjóra og að forstjórar þess þurfi að endurgreiða milljónir í persónulega skatta. Ef fínu félögin væru undanþegin úrtaki, væri Sambandið enn hreint og hvítt.

223 milljón króna grínmál SÍS fjallar því miður um kaffibaunir. Meiri stíll hefði verið yfir hundrað þúsund naglbítum. En Sambandið ætti þó að fylgja gamni sínu og ríkisvaldsins á enda og skipta um skammstöfun. Stafirnir FFF færu því einstaklega vel.

Jónas Kristjánsson.

DV