Í gamla daga voru ekki fótboltabullur á Bretlandseyjum. Þá var þar rekin heimsvaldastefna. Ungum mönnum var smalað í herinn og innprentuð trú á fánann og kónginn. Þeir voru svo sendir til slátrunar í fjarlægum álfum. Nú er heimsveldið horfið og lítil tækifæri til að losna við iðjuleysingja úr fátækrahverfum. Þeir verða því fótboltabullur, öllum til ama heima fyrir og erlendis. Herinn er hins vegar myndaður af fagmönnum, atvinnumorðingjum á góðu kaupi. Þjóðfélög vesturlanda skortir færi á að losna á einu bretti við mikinn massa af fallbyssufóðri, bullum, sem aldrei geta orðið fagmenn í neinu stríði.