Falsfréttir berast hingað

Punktar

Í Venezúela eru fjórar harðskeyttar sjónvarpsstöðvar í eigu ríkra landeigenda og olíukónga. Þær eru afar andsnúnar hinum lýðræðislega kjörna forseta landsins, Hugo Chavez, sem studdur var til valda af fátæklingum landsins. Stöðvarnar voru í þungamiðju misheppnaðrar tilraunar til að steypa forsetanum af stóli í fyrra og hvöttu menn linnlaust til aðgerða. Ríkisstjórn Bandaríkjanna tók undir gagnrýni sjónvarpsstöðvanna og studdi byltingartilraunina óbeint, unz Samtök Ameríkuríkja lýstu yfir stuðningi við rétt kjörinn forseta. Naomi Klein segir í Guardian frá reynslu þekkts blaðamanns, sem fékk nóg af því að starfa við fréttafalsanir sjónvarpstöðvanna. Sú mynd, sem við fáum hér í sjónvarpinu og Mogganum af stöðu mála í Venezúela, er bandarísk mynd, sem er sterkt lituð af hagsmunum óvenjulega gráðugra auðmanna í Venezúela. Þetta er gott dæmi um brenglaðar fréttir, sem berast hingað til lands og eru hafðar fyrir sannar.