Stigið hefur verið skref í átt til fáokunar í heildsölu á nýlenduvöru. Verzlunarkeðjan 10-11 er farin að kaupa pakkavörur sínar hjá Aðföngum, sem er innkaupafyrirtæki Hagkaups, Nýkaups og Bónusar. Fleiri verzlanir eru á sömu leið inn í hlýjuna hjá þeim stóra.
Samruni hefur verið hraður í nýlenduvöruverzlun á undanförnum árum. Myndast hafa öflugar keðjur, þær sem nefndar voru hér að ofan og auk þess Nóatún, 11-11 og Nettó. Þessar keðjur hafa barizt af hörku og sameiginlega haldið niðri vöruverði í landinu.
Samkeppnin í smásölunni hefur átt umtalsverðan þáttí að halda verðbólgu í skefjum hér á landi á allra síðustu árum og hefur jafnvel leitt til verðhjöðnunar á sumum tímabilum. Þetta hefur bætt lífskjör almennings og auðveldað ríkisvaldinu efnahagsstjórnina.
Því miður er endanlegt markmið allrar samkeppni að komast í einokun. Það er eins og að setjast í helgan stein eftir stormasama ævi og láta peningana velta til sín fyrirhafnarlaust. Með samkeppni stefna fyrirtæki að því að fækka keppinautum og sitja ein eftir á fleti.
Spurningin er, hvenær þetta ferli hættir að vera neytendum til hagsbóta og fer að verða þeim skaðlegt. Fólk hrökk við, þegar helztu keppinautarnir, Bónus og Hagkaup, féllust í faðma, sameinuðust fyrst um aðföng og rugluðu síðan hreinlega saman reytum sínum.
Fátt hefur enn komið fram, sem bendir til, að stofnun Baugs og síðan Aðfanga hafi þrengt kosti neytenda. Enn er hörð samkeppni í vöruverði í smásölu. Enn eru verzlunarkeðjur í fararbroddi þeirra, sem bæta lífskjör þjóðarinnar og efla þjóðhagslegt jafnvægi.
Að vísu hefur nokkuð borið á, að góðar vörur hafi horfið úr hillum og lakari komið í staðinn, sennilega vegna þeirrar yfirburðastöðu, sem Aðföng hafa náð í heildsölunni. Enginn getur keppt við aðila, sem hefur forgang að viðskiptum allra stærstu keðjanna.
Við vitum ekki, hvort viðskipti 10-11 keðjunnar við Aðföng verða skurðpunkturinn, sem snýr samkeppnisdæminu við. Við vitum ekki, hvort þrengd fákeppni í heildsölunni hefur neikvæð áhrif á verðlag í smásölu. Við getum ekki dæmt þennan einstaka atburð.
Hitt er ljóst, að dæmið hlýtur fyrr eða síðar að snúast við. Með vaxandi samruna og myndun ráðandi viðskiptablokka á afmörkuðum sviðum kemur að lokum að því, að neytendur hætta að græða og fara að tapa. Þetta er ekki séríslenzkt, heldur alþjóðlegt vandamál.
Með lögum um einokun og hringa hafa stjórnvöld á Vesturlöndum reynt að hindra, að hagstæð samkeppni breytist í óhagstæða fáokun. Sums staðar hefur verið bannaður samruni, sem felur í sér, að markaðshlutdeild á afmörkuðu sviði fari yfir ákveðna prósentu.
Slík lög hafa verið umdeild, enda er erfitt að meta í tölum, á hvaða punkti samkeppni breytist í fáokun. Fáokun felst líka í fleiru en samruna og hærri markaðshlutdeild. Hún felst til dæmis líka í myndun viðskiptablokka, sem ná yfir röð samliggjandi viðskiptasviða.
Flugleiðir eru til dæmis í netmiðju kerfis, sem spannar erlenda ferðamenn, hvort sem þeir nota flug, bílaleigur, hópferðabíla, ferðaskrifstofur, hótel eða veitingahús. Á hverjum stað er ferðamanninum vísað á önnur fyrirtæki innan keðjunnar, en ekki á hin fyrir utan.
Þótt ekki þurfi að blása í herlúðra út af viðskiptum 10-11 við Aðföng sérstaklega, er almennt gott, að fólk haldi vöku sinni á fámennum og fáokunarhneigðum markaði.
Jónas Kristjánsson
DV