Fámennisstjórn auðkýfinga

Greinar

Ráðamenn Kína geta mikið lært af Hong Kong eftir yfirtökuna, ef þeir kæra sig um. Þar eru háþróaðar nútímastofnanir, sem hingað til hafa tryggt samfellda velgengni Hong Kong, svo sem frjáls kauphöll, frjálst réttarkerfi, frjáls fjölmiðlun og frjálst kosið þing.

Ráðamenn Kína geta spurt sig, hvers vegna íbúum Hong Kong hefur vegnað efnahagslega miklu betur og hraðar en íbúum meginlandsins. Þeir geta raunar einnig spurt sig, hvers vegna kínverskum íbúum Taívans og annarra nágrannalanda yfirleitt hefur vegnað betur.

Óþarfi að gera mikið veður út af flýti Kínastjórnar við að senda her og skriðdreka til Hong Kong. Ráðamenn Kína eru fyrst og fremst að sýna mátt sinn og megin, svo sem gjarnt er um þá, er skortir sjálfsöryggi. Þeir eru ekki að efna til blóðbaðs á friðartorgunum í Hong Kong.

Hitt er ills viti, að lýðræðislega kjörið þing í Hong Kong hefur verið sent heim og í þess stað skipað nýtt þing samkvæmt nafnalista frá Beijing. Það bendir til, að Kínastjórn muni ekki sætta sig við, að fólkið í Hong Kong geti átölulaust fengið að segja hug sinn.

Kínastjórn hefur komið á fót sérstæðri tegund fámennisstjórnar í Hong Kong. Það er ekki fámennisstjórn flokksleiðtoga, heldur auðkýfinga, sem sækja afar íhaldssama og almennings-fjandasmlega hugmyndafræði sína miklu fremur til Singapúr en til Beijing.

Búast má við, að auðkýfingarnir vilji fremur réttaröryggið og siðavendnina í Singapúr en réttaróvissuna og spillinguna í Kína. Þeir munu þó að hætti Singapúrs vilja hafa lögin ströng, sérstaklega þau, sem lúta að gagnrýni á stjórnvöld og viðurlögum við henni.

Erfiðara verður að koma slíku á í Hong Kong en í Singapúr. Íbúar fyrri staðarins hafa vanizt því að fá að segja hug sinn, mynda með sér félög að eigin geðþótta og geta valið úr ótal fjölmiðlum með fjölbreytilegar skoðanir. Hong Kong er miklu vestrænni en Singapúr.

Líklegast er, að í fyrstu verði spennan í Hong Kong fyrst og fremst milli vestrænt hugsandi lýðræðissinna og fámennisstjórnar auðkýfinganna, sem óttast lýðinn, fremur en milli stjórnarinnar í Hong Kong annars vegar og yfirstjórnarinnar í Beijing hins vegar.

Að vísu er engin sérstök sagnfræðileg ástæða til að reikna með, að Kínastjórn láti auðkýfingana í Hong Kong ráða ferðinni. Þeir hafa vanizt því að vera íhlutunarsamir, enda búa þeir við hugmyndafræði, sem segir, að smáu sem stóru skuli stjórnað frá valdamiðjunni.

Ennfremur sýnir reynslan, að stjórnin í Beijing er mjög íhlutunarsöm við landamærin. Hún gerði innrás í Tíbet og innlimaði það. Hún gerði innrás í Indland og náði þar nokkrum héruðum. Hún gerði innrás í Víetnam, en varð undan að láta við lítinn orðstír.

Kínastjórn hefur verið með yfirgang gagnvart Taívan og gagnvart ríkjum, sem eiga lönd að Kínahafi. Hún gerir tilkall til óbyggðra eyja, sem eru miklu nær ströndum annarra landa. Hún gerir tilkall til Mongólíu og héraða í Rússlandi. Hún er ófriðleg á öllum landamærum.

Óhjákvæmilegt var, að Kína tæki völdin í Hong Kong. Bretland hefur ekki innri kraft til að verja fjarlægar leifar heimsveldis síns. Betra er, að valdaskiptin fari fram á friðsamlegan hátt en með blóðsúthellingum. Ef illa fer fyrir Hong Kong, er ekkert við því hægt að gera.

Því miður er líklegt, að óttinn við, að áhrifin frá Hong Kong grafi undan kerfinu á meginlandinu, verði yfirsterkari lönguninni til að læra af ríkidæmi borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV