Fangi harðlínumanna

Greinar

Reagan Bandaríkjaforseti var fangi harðlínumanna í hópi fylgdarmanna sinna, þegar hann þorði ekki í Höfða á sunnudaginn að stíga síðasta skrefið til tíma mótasamkomulags við Gorbatsjov Sovétleiðtoga um víðtækan niðurskurð kjarnorkuvopna.

Leiðtogarnir voru efnislega búnir að ná samkomulagi, en gátu ekki undirritað það vegna ósamkomulags um, hvort rannsóknir til undirbúnings geimvarnavopnum mættu aðeins fara fram í rannsóknastofum eða einnig utan þeirra. Það var þúfan, sem velti hlassinu.

Enginn vafi er á, að Gorbatsjov vann áróðursstríðið í Reykjavík. Hann kom til leiks vel birgur eftirgjöfum, meðan Reagan virtist ekki geta hreyft sig eins mikið. Hinar umdeildu ráðagerðir hans um svokallað stjörnustríð eða geimvarnir voru honum fjötur um fót.

Samt verður að hafa í huga, að geimvarnamálið er afleiðing þess, að Sovétríkin hafa um margra ára skeið hlaupið mun hraðar en Bandaríkin í vígbúnaðarkapphlaupinu. Stjörnustríð er óskhyggja þess, sem vill loka sig inni í kastala fyrir ágengum óvinum sínum.

Einnig verður að hafa í huga, að það stóð Gorbatsjov nær að slaka til, einmitt vegna ofkeyrslu vígbúnaðar Sovétríkjanna á mörgum undanförnum árum. Hann er að bæta fyrir það brot með því að fallast á vestræn sjónarmið um samdrátt vígbúnaðar og eftirlit með honum.

Samkomulagið, sem Gorbatsjov og Reagan náðu í Reykjavík, en gátu ekki undirritað, er nokkurn veginn eins og lagt hefur verið til í ýmsum blöðum á Vesturlöndum, þar á meðal í DV. Það markar tímamót og hefur mikið gildi, þótt það sé ekki undirritað.

Fólk verður að vona, að málið verði ekki lagt á hilluna, þótt eitt skref hafi vantað í átt til samkomulags. Það skref má stíga á öðrum toppfundi í vetur, þegar leiðtogarnir og ráðgjafar þeirra hafa áttað sig á, hversu lítið, en bráðnauðsynlegt síðasta skrefið er í raun.

Ekki er tímabært að útiloka, að Reagan geti á síðustu tveimur valdaárum sínum náð svo sögulegu samkomulagi við Gorbatsjov, að samkomulag Nixons, forvera hans, við Kínverja falli í skuggann. Hann var síðdegis á sunnudaginn aðeins hársbreidd frá því.

Eðlis málsins vegna er auðveldara fyrir harða repúblikana eins og Nixon og Reagan að semja um slíka hluti. Þeir eiga að geta róað hægri kantinn í flokki sínum og haft meiri frið fyrir gagnrýni en forsetar demókrata geta. Þetta gat Nixon, en Reagan ekki enn.

Að öðrum kosti verður mannkyn enn til viðbótar að búa við nokkur ár vaxandi öryggisleysis. Ef það lifir af, verður hlutverkið forsetans, sem tekur við af Reagan, sennilega úr flokki demókrata, að semja við Sovétríkin um aukið öryggi gegn styrjöld heimsveldanna.

Mikilvægast er, að Reagan hætti að ramba milli hinna tiltölulega mildu sjónarmiða, sem einkum gætir í utanríkisráðuneytinu, og hinna grjóthörðu sjónarmiða, sem einkum gætir í hermálaráðuneytinu. Honum ber nú orðið að halla sér að hinum fyrrnefndu.

Þótt Reagan hafi mistekizt að Höfða, hefur hann enn tækifæri til að skrá nafn sitt í veraldarsöguna sem friðarforsetans, er kom öryggismálum heimsins í traustan farveg með sögulegu samkomulagi við Sovétríkin. Til þess þarf hann að losna úr fangelsi harðlínumanna.

Hið óundirritaða samkomulag Reykjavíkurfundarins um verulegan samdrátt kjarnorkuvopna getur hæglega fæðst, þótt herzlumuninn hafi vantað að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV