Ekki er sanngjarnt að saka forstjóra fáokunarfyrirtækja um að reyna að nota fáokunina til að efla gengi fyrirtækjanna, sem þeim er trúað fyrir. Það er innbyggt í hagkerfi okkar, að samkeppni leiðir á endanum til fáokunar, þegar þrír eða færri samkeppnisaðilar eru eftir með meirihluta viðskipta á hverju sviði. Þá sjá þeir, að fáokun er hagkvæmari en samkeppni. Þetta náttúrulögmál gengur bara hraðar fyrir sig hér á landi en í öðrum löndum, af því að markaðurinn er svo lítill. Stjórnvöld bera hluta ábyrgðarinnar, af því að þau reyna ekki að tefja fyrir náttúrulögmálinu með því að auðvelda aðkomu nýrra fyrirtækja, til dæmis útibúa frá erlendum fyrirtækjum. En það eina, sem getur bjargað okkur frá rökréttri endastöð markaðshagkerfisins, er nýtt hagkerfi, sem leysi það af hólmi, en slíkt kerfi hefur ekki fundizt enn.