“Fáránlegt kjaftæði”

Greinar

Hinn vinsæli forsætisráðherra upplýsti í blaðaviðtali í gær, að það sé “svo fáránlegt, að það tekur engu tali”, að ráðherrar skuli sæta hlunnindaskatti vegna notkunar á bíl, sem ríkið lætur þeim í té. “Kjaftæði” ríkisskattstjóra um slíkt sé “fyrir neðan allar hellur”.

Ráðherrann upplýsti ekki, hvers vegna þessar reglur voru settar á vegum ríkisstjórnar hans, úr því að ekki var ætlunin að fara eftir þeim. Forstjórar úti í bæ hafa yfirleitt heimilisbíl til snattferða og borga þó hlunnindaskatt af bíl, sem fyrirtækið leggur þeim til.

Lengi hefur verið vitað, að forsætisráðherra er ónákvæmur í siðferðilegum efnum. Samt kemur á óvart, að hrokinn í spillingunni skuli vera þvílíkur, sem kemur fram í blaðaviðtalinu. Orðbragð forsætisráðherra í garð heiðarlegra embættismanna er afar óviðeigandi.

Sérstaklega er þó eftirtektarvert, að þjóðin skuli vera svo torlæs á spillingu, að hún styður hvað eftir annað til valda stjórnmálamenn, sem vitað er, að ekki eru til fyrirmyndar að siðferði. Meðan svo er, verður lítill árangur af andófi stakra embættismanna og fjölmiðla.

Fyrirgreiðsla ráðherra gagnvart sjálfum sér hefur komið fram í ýmsum myndum. Þeir fundu upp á að láta ríkið greiða fyrir sig alla reikninga fyrir kostnað á ferðalögum sínum í útlöndum, jafnvel þótt þeir fengju líka sjálfir dagpeninga til að greiða þennan kostnað.

Að vísu komust embættismenn í það mál og fundu, að ráðherrarnir létu tvígreiða fyrir sig sama hlutinn. Afleiðingin var, að ráðherrar verða nú að greiða hlunnindaskatt af dagpeningum, alveg eins og ríkisskattstjóri vill nú, að þeir greiði af bílum, sem þeir fá að nota.

Frægustu dæmin um siðferðisskort ráðherra hafa tengst umgengni þeirra við áfengi. Komið hefur í ljós, að sumir þeirra, þar á meðal forsætisráðherra, hafa miklar birgðir ríkisáfengis heima hjá sér, og að aðrir hafa haldið miklar afmælisveislur á kostnað ríkisins.

Athyglisvert er, að áfengisnotkun ráðherra í heimahúsum vegna komu erlendra gesta er svo feiknarleg, að ætla mætti að útlendingarnir liggi almennt undir borðum, áður en yfir lýkur. Spurning er, hvort ekki þurfi að hafa lækni á staðnum við slíkar aðstæður.

DV upplýsti í fyrradag, að ráðherrar skammta sér nokkrum sinnum betri lífeyrisrétt en aðrir starfsmenn ríkisins. Ráðherrarnir safna á hverju ári rétti til 6% af launum sínum, en þingmenn 3% og aðrir starfsmenn 2%. Þetta kemur ekki fram í iðgjöldum ráðherra.

Með margvíslegum slíkum hætti smyrja ráðherrar á tekjur sínar. Bifreiðahlunnindin nema eftir verðgildi bílsins frá 35.000 krónum til 90.000 króna á mánuði. Dagpeningahlunnindi hjá sæmilega ferðaglöðum ráðherra nema 80.000 krónum til 114.000 króna á mánuði.

Þyngst vega hlunnindin, sem ráðherrar afla sér með sérstöðunni í lífeyrisrétti. Þau nema 117.000 krónum á mánuði hjá venjulegum ráðherra og 138.000 krónum hjá forsætisráðherra. Samanlagt nema mánaðartekjur annars hvers ráðherra 500.000 krónum eða meiru.

Verið getur, að ráðherrar eigi slíkar tekjur skilið vegna mikilvægis starfa sinna. En ekki er hægt að sjá, að þær eigi að skattleggja öðru vísi en aðrar rosatekjur í þjóðfélaginu. Þær álögur, sem ráðherrar leggja á þjóðina, eiga að leggjast eftir sömu reglum á þá sjálfa.

Þegar ráðherra grænna bauna kallar slíkt “fáránlegt kjaftæði”, er tímabært, að þjóðin fari að hafa áhyggjur af siðferði ráðamanna, sem hún hefur alið sér við brjóst.

Jónas Kristjánsson

DV