Farið kringum leikreglur

Greinar

Frægt var fyrir tveimur árum, þegar knattspyrnumaðurinn Maradonna barði knettinum með hendinni í netið í heimsmeistarakeppni, án þess að dómarinn sæi til brotsins. “Það var hönd guðs, sem skoraði markið”, sagði knattspyrnumaðurinn hinn reifasti á eftir.

Þótt Maradonna sé að þessu leyti ber að svikum í leik, hefur ekki rýrnað hlutverk hans sem átrúnaðargoðs. Áhugamenn um knattspyrnu virðast margir hverjir telja hann fullgildan sem íþróttamann og fyrirmynd uppvaxandi æsku. Þannig hafa góðir siðir sett ofan.

Mörgum finnst tvennt skipta máli við slíkar aðstæður. Í fyrsta lagi hafi dómarinn ekkert séð athugavert. Því hafi formlega séð ekkert brot verið framið. Um siðleysi varðar þá ekkert. Og í öðru lagi skipti mestu, að lið Maradonnas vann. Markmiðið sé einmitt að vinna.

Í sjónvarpinu var um helgina fjallað ágætlega um útbreidda notkun íþróttamanna á bönnuðum lyfjum. Þar var haldið fram, að meirihluti þeirra, sem taka þátt í ólympíuleikum og hliðstæðri keppni í frjálsum íþróttum, noti slík lyf, líklega 80% þeirra eða fleiri.

Einnig kom fram, að áhugamenn um íþróttir gera sér margir hverjir ekki mikla rellu út af þessu. Aðalatriðið er, að hetjurnar og fyrirmyndir unglinga noti lyfin á þann hátt, að ekki mælist í lyfjaprófum. Það er einmitt eitt helzta verkefni þjálfara að tryggja þetta.

Ben Johnson notaði lyfin ógætilega og var rekinn heim með skömm. Hinir, sem notuðu þau skipulegar, stigu á verðlaunapalla og tóku við hyllingu fjöldans. Of fáir virðast hafa áhyggjur af, að ólympíuleikar eru orðnir að marklitlum skrípaleik, keppni milli lyfjabúða.

Við tökum líka eftir þessu í stjórnmálum. Ekki er spurt um siðlaus vinnubrögð, ef engin formleg leið er til að ná lögum yfir þau. Og of margir trúa því hreinlega, að markmiðið helgi meðalið. Markmiðið í stjórnmálum eins og íþróttum er, að “okkar menn” vinni.

Á þessum stað hefur áður verið vakin athygli á, að í baráttunni fyrir síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum var beitt ógeðfelldum brögðum til að tryggja núverandi forseta sigur. Um þetta verður að fjalla, því að annars er hætta á, að slíkar aðferðir breiðist út.

Kosningabaráttan, sem James Baker, núverandi utanríkisráðherra, rak í þágu forsetaefnisins, fólst fyrst og fremst í að koma á kreik gróusögum í garð andstæðingsins og rækta gegn honum margvíslega fordóma, sem blunda undir niðri með of mörgum kjósendum.

Óþarfi er að endurtaka hér enn einu sinni, hvernig þetta var gert í smáatriðum. Aðalatriðið er, að Baker og Bush komust upp með að líta á kjósendur sem fáfróð tilfinningabúnt og heppilegan jarðveg fyrir neikvæðan áróður, er beindist að brenglaðri undirvitund fólks.

Svo segja menn, að Baker og Bush séu mjög færir, af því að þeim tókst þetta. “Okkar menn unnu” er sagt að leiðarlokum. Síðan haga skunkarnir sér eins og fínir menn, ferðast um heiminn og segja fjölmennum og fámennum þjóðum, hvernig þær eigi að haga sér!

Við getum líka litið okkur nær. Hér á landi tíðkast að nota stjórnmálavöld til að færa til peninga í þágu gæludýra stjórnmálaflokkanna. Þetta viðgengst eins og svínastíubaráttan í Bandaríkjunum, af því að fólk lætur það gott heita, ef menn komast hjá armi laganna.

Vestrænt samfélag endar illa, ef menn halda áfram að sætta sig við Maradonna og ólympíuleika lyfjabúða, Bush og Baker og alla þá, sem fara kringum leikreglur.

Jónas Kristjánsson

DV