Farinn er friðarins maður.

Greinar

Látinn er einn merkasti og bezti stjórnmálamaður vorra tíma, Anwar Sadat, forseti Egyptalands. Hann féll í gær ásamt ellefu öðrum mönnum í árás hryðjuverkamanna, þegar hann fylgdist með hersýningu í einu úthverfa höfuðborgarinnar, Kaíró.

Sadat var stundum kallaður einræðisherra. En það var hann ekki. Í innanlandsmálum mátti kalla hann ofríkismann, því að hann fangelsaði stundum andstæðinga sína eða sendi þá í útlegð. En hann drap þá ekki né lék þá grátt.

Í þessum heimi mannvonzku bar Sadat af flestum leiðtogum þriðja heimsins. Ríki hans var ekki ofbeldisríki hers og lögreglu, svo sem orðin er viðtekin venja í öllum þorra ríkja heims. Í Egyptalandi voru mannréttindi virt.

Gagnstætt flestum leiðtogum þriðja heimsins reyndi Sadat að draga úr útgjöldum til hermála og verja fénu frekar til efnahags- og félagsmála. Í þessu náði hann nokkrum árangri og var vel látinn af alþýðu manna í Egyptalandi.

Frægastur er Sadat þó fyrir utanríkismálin og afstöðuna gagnvart Ísrael. Fyrst reisti hann við sjálfsvirðingu Egypta í Jom Kippur stríðinu við Ísrael árið 1973, þegar honum vegnaði mun betur en Nasser hafði vegnað í tvígang.

Mest kom hann á óvart árið 1977, þegar hann kom til Jerúsalem og hóf langvinna og erfiða samninga um frið í botnalöndum Miðjarðarhafs. Sú för var upphafið að einangrun hans meðal araba og um leið upphafið að endalokum hans.

Því miður átti hann þar ekki við stórmenni að tefla, heldur þröngsýnan skæruliðaforingja, sem aldrei skildi og skilur ekki enn, hvað er í húfi. Menachem Begin, forsætisráðherra Ísrael, hélt meiru en hann lét af hendi.

Friðarsamningurinn milli Egyptalands og Ísraels, kenndur við Camp David í Bandaríkjunum, var ekki Begin að þakka, heldur Sadat og öðrum manni með svipaða reisn, Jimmy Carter Bandaríkjaforseta, sem menn munu síðar læra að meta.

Friðarverðlaun Nóbels hefðu þá átt að falla Sadat einum í skaut, en ekki í samlögum með Begin, sem hafði ekki lagt hart að sér við að koma á hinum ótrygga friði, sem nú er allt í einu orðinn mun ótryggari en fyrr.

Sadat þurfti mikinn kjark til að undirrita samning við Ísrael. Honum var útskúfað úr hópi leiðtoga arabaríkja. Í þrjú ár hafa þeir heimtað höfuð hans. Og nú hafa þeir fengið það, enda fagna þeir ákaft og innilega.

Þennan kjark hafði Sadat sýnt oftar en einu sinni á ferli sínum. Tvívegis var hann handtekinn af Bretum á stríðsárunum síðari og eftir stríðið. Og hann hafði ekki verið lengi við völd í Egyptalandi, þegar hann rak 15.000 Rússa úr landi.

Anwar Sadat fæddist hjá alþýðufólki 25. desember 1918. Tvítugur útskrifaðist hann úr herskóla, þar sem hann kynntist Nasser. Þeir stóðu saman í byltingunni 1952. Varaforseti Nassers varð Sadat 1969 og forseti ári síðar, við fráfall Nassers.

Nú er mikilmennið horfið og tómarúmið er komið í staðinn. Forsetakosningar eiga að verða í landinu innan 20 daga. En óvíst er, að þær dugi til að koma á festu, því að Hosni Mubarak varaforseti er að mestu óskrifað blað.

Hinir grimmari, ómerkilegri og hættulegri leiðtogar á svæðinu munu reyna að fylla tómarúmið, sem hefur myndazt við fráfall eins mesta friðarins manns síðustu ára. Eftir lát Sadats er heimurinn hættulegri en áður.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið