Farþegar á ótemju

Greinar

Fjárlagafrumvörp eru dæmi, sem ganga ekki upp. Jafnvægi í niðurstöðutölum sveiflast fremur eftir breytingum á veltu í þjóðfélaginu en veltumagninu sjálfu. Greiðsluafgangur næst aðeins fyrsta veltuárið og ef til vill annað árið eftir að samdráttarskeiði lýkur.

Síðan lagast útgjöldin að tekjuaukningunni, af því að þrýstingur á hækkanir er innbyggður í smíðatækni fjárlagafrumvarpa. Þarfirnar eru svo margar og þrýstingur hagsmunaaðila svo fjölbreyttur, innan framkvæmdavalds og löggjafarvalds, jafnt sem utan úr bæ.

Þegar harðnar í ári að nýju, gerir smíðatækni fjárlaga ekki ráð fyrir þeim möguleika, að draga verði saman seglin. Á þeim tíma hlaðast upp ríkisskuldir, sem ætlazt er til, að börnin okkar borgi einhvern tíma seinna. Þetta er ónothæft ástand, en er samt íslenzkur raunveruleiki.

Við erum núna á rísandi báru. Góðæri ársins hefur aukið innflutning og skekkt viðskiptajöfnuðinn, en um leið aukið svo tekjur ríkisins, að niðurstöður ríkisfjármála verða hagstæðari en reiknað var með í fjárlögum. Á næsta ári er búizt við tekjuafgangi ríkisins.

Stærsta þverstæðan í þessu dæmi er, að tekjuafgangur í rekstri ríkissjóðs er háður halla á rekstri þjóðarbúsins. Tekjuaukning ríkisins stafar nefnilega að mestu af auknum innflutningi og þar með hallarekstri þjóðfélagsins í heild. Þetta er í hæsta máta óheilbrigt samhengi.

Samt gefa núverandi aðstæður óvenjulegt svigrúm til að stokka spilin og hugsa dæmið upp á nýtt. Í fjárlagafrumvarpinu hefur það ekki verið gert. Enn er verið að raða saman og skera niður óskhyggju úr ráðuneytunum, sem sumpart er afleiðing þrýstings utan úr bæ.

Þegar horfur eru á tekjuafgangi eins og núna, er betra tækifæri en ella til að skoða smíðatækni frumvarpsins í heild. Sumir þættir þess stjórnast fremur af hefðum en hagsmunum þjóðarinnar. Aðrir fela í sér sjálfvirka þenslu, sem skilgreina þarf og stöðva í fæðingu.

Nokkur dæmi skera í augu. Ástæðulaust er, að einstök ráðuneyti atvinnuvega séu rekin eins og velferðarráðuneyti. Atvinnuvegir eiga að standa undir þjóðarbúinu og ríkisbúinu, en ekki öfugt. Þjóðarbúið og ríkisbúið eiga til dæmis ekki að standa undir innlendum landbúnaði.

Einnig er ástæðulaust, að ríkið neiti sér fyrir hönd þjóðfélagsins um að skattleggja notkun sameiginlegra auðlinda. Atvinnuvegir eiga ekki að hafa frían aðgang að takmörkuðum auðlindum. Þjóðarbúið og ríkisbúið eiga til dæmis að hafa leigutekjur af fiskimiðunum.

Dæmin úr ráðuneytum velferðar eru einnig auðtekin. Í heilbrigðisgeiranum þurfa menn að svara grundvallarspurningum um, hvernig beri að taka á sífellt hraðari komu æ dýrari lyfja á markað, þannig að lyfjakostnaður ríkisbúsins og helzt þjóðarbúsins haldizt í skefjum.

Í sama geira þarf að svara fleiri grundvallarspurningum, til dæmis hvort unnt sé að ætlast til þess af fólki, að það taki sjálft hluta ábyrgðarinnar á eigin heilsu og sói henni að minnsta kosti ekki með óheilbrigðu líferni, svo sem með vondu mataræði og hreyfingarleysi.

Í menntunargeiranum hafa gæði þjónustunnar tilhneigingu til að minnka, nema kostnaður sé sífellt aukinn. Embættismönnum, skipuleggjendum, fundum og ráðstefnum fjölgar á kostnað raunverulegra starfsmanna og vinnuframlags inni í kennslustofunum sjálfum.

Meðan of vægar tilraunir eru gerðar til að takast á við innbyggð verkefni af þessu tagi, verða ríkisstjórnir áfram eins konar farþegar á sjálfvirkri ótemju.

Jónas Kristjánsson

DV