Fyrir öld brúa urðu hestar að vera vel syndir, þegar í harðbakkann sló á erfiðum vöðum. Eða þegar menn vildu stytta sér leið. Skaftfellskir hestar, einkum úr Hornafirði og Öræfum, voru eftirsóttir fyrir einni öld. Kallaðir vatnahestar. Sumir hestar eru svo djúpsyndir, að varasamt er að sitja þá. Aðrir synda hátt í vatni og eru þægilegir ásetu við þær aðstæður. Einstaka hestar leita sífellt botns og hoppa því á sundinu. Ég sá einn hoppa þannig í Holtsós. Þeir eru hættulegir. Hlutverk fólks á sundreið er að vera farþegar, toga ekki í tauminn, standa í ístöðunum og hanga að öðrum kosti í faxinu.