Ég sit alltaf austan við borðið, þegar ég fæ mér snæðing á Höfninni, með útsýni yfir lystifiskibátana. Þá sé ég ekki Humarskipið, ljótasta mannvirki á Íslandi. Yfirbyggt fiskiskip, þar sem ekki hefur verið stuðst við neinar verkteikningar. Yfirbyggingin er hörmulega troðið ofan á skipið án tillits til samræmis. Ofan af Skaga frétti ég, að bæjarstjórnin á Akranesi hafi samþykkt að taka við skrípinu. Þetta fræga veitingahús, sem enginn, er ég þekki, nefur heimsótt, verður hér eftir Skagamönnum til yndisauka. Nú get ég setið vestan við borðið undir stóru gluggunum á veitingastaðnum Höfninni.