Fasistar eru hér

Greinar

Sumum finnst ljótt að heyra eða lesa orðin fasismi og fasisti, þótt að baki séu vísindalegar skilgreiningar á viðhorfi margra til lífsins og tilverunnar. Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa félags- og sálvísindamenn kafað í hugarfar, sem kraumar undir niðri á Vesturlöndum.

Bezt fjallaði hópur bandarískra og þýzkra fræðimanna um fasisma og fasista. Þekktastir voru Adorno og Horkheimer, sem notuðu raunar hugtökin valdshyggju og valdshyggjumenn sem minna hlaðin orð. Ég hef raunar oftar notað þau orð en fasisma og fasista um nokkra þætti íslenzkra stjórnmála.

Vísindin hafa sýnt fram á, að valdshyggjumaðurinn eða fasistinn sér heiminn í svarthvítum dráttum eins og George W. Bush Bandaríkjaforseti. Fasistinn gerir skarpan mun á “okkur” og öllum “hinum” og telur alla hina vera ógnvekjandi og valdagráðuga. Á Íslandi er hann vænisjúkur flokksjálkur.

Fasistinn er haldinn þjóðrembu og flokksrembu, óbeit á útlendingum, minnihlutahópum og þeim, sem taldir eru minni máttar. Ef ytri skilyrði eru hagstæð, til dæmis mikill innflutningur útlendinga, mynda fasistar flokka, sem undanfarið hafa náð 5-25% kjósendafylgi víða í Evrópu.

Sérkennilegast við stöðu Íslands er hugmyndafræðileg tenging milli Sjálfstæðisflokksins og ítalska fasismans frá Mussolini og Berlusconi, svo sem sést af slagorðunum “Stétt með stétt” og “Áfram Ísland”. Mikill stuðningur þjóðarinnar við þessi viðhorf sést í dálæti hennar á “þjóðarsátt”.

Íslenzki fasistinn vill bráðabirgðalög, sem er orð 20. aldar um tilskipanir. Hann vill, að Hæstiréttur sé pakkaður með “okkar” mönnum. Hann styður illa skilgreind stríð gegn Afganistan og Írak og lætur sér fátt um finnast, þótt óður bandarískur her drepi þar þúsundir óbreyttra borgara.

Íslenzki fasistinn dreymir um heila þjóð, sem talar einum rómi foringjans, í þessu tilviki Davíðs Oddssonar. Fasistinn er andvígur gagnrýni eða stríðni í fjölmiðlum og telur rétt að skrúfa fyrir hana með sértækum fjölmiðlalögum, er beint sé að þeim, sem rjúfa skjaldborgina um okkar Mussolini.

Adorno og Horkheimer og félagar þeirra reyndu að sálgreina manntegund fasistans. Niðurstöður þeirra eru utan ramma þessa leiðara, sem hefur þann tilgang að segja fólki, að það er ekki innantómur reiðilestur, þegar ég nota orðin fasisti og fasismi, heldur tilvísun til raunverulegs lífsviðhorfs.

Fasistar eru fyrirferðarmiklir í valdastöðum stjórnmálanna. Þeir vilja valta yfir “hina”. Þeir hægja á göngu þjóðarinnar í átt til lýðræðis, gegnsæis, velferðar og mannréttinda.

Jónas Kristjánsson

DV