Frá Sámsstöðum í Laxárdal um Ljárskóga til Hóla á Fellsströnd.
Þetta er fyrst og fremst sportleið, sem liggur eins og öfugt Z um heiðalönd og leirur í nágrenni Búðardals. Fyrst er farið um Hólmavatnsheiði, síðan þverbeygt við Ljárskógasel niður með laxveiðiánni Fáskrúði að Ljárskógum og loks riðinn sjávarbotn á fjöru. Leið, sem hestamenn í Búðardal fara oft.
Í Ljárskógaseli ólst upp skáldið Jóhannes úr Kötlum. Katlarnir sem Jóhannes kenndi sig við eru við Fáskrúð, skammt neðan við bæinn í Ljárskógaseli, með hyljum, klettum og gljúfrum. Í Ljárskógum fæddist skáldið og söngmaðurinn Jón frá Ljárskógum. Eftir hann liggja ljóð og söngtextar, sem margir raula við gítarundirleik. Jón var bassasöngvari og átti stóran þátt í velgengni MA-kvartettsins á árunum 1932-1942.
Byrjum á þjóðvegi 59 um Laxárdal, við Sámsstaði. Förum þaðan norðvestur á fjallið og síðan norður fyrir Sámsstaðavatn að austanverðu. Því næst vestur á Reiðborg og þaðan norður fyrir Miðvatn að austanverðu. Þaðan vestur að eyðibýlinu Ljárskógaseli við Fáskrúð. Síðan farinn veiðivegur um þétta lyngmóa niður með ánni að suðaustanverðu. Yfir þjóðveg 60 og að Hvammsfirði. Þar sætum við sjávarföllum og förum út á fjöruna og ríðum hana norður og vestur með landinu. Tökum land austan við Skerðingsstaðahöfða og fylgjum slóð fyrst í vestur og síðan í norður, að þjóðvegi 590 um Fellsströnd. Fylgjum veginum 500 metra til norðurs og beygjum síðan norðvestur að Hólum.
28,1 km
Snæfellsnes-Dalir
Nálægir ferlar: Gaflfellsheiði.
Nálægar leiðir: Botnalaxhæðir, Sölvamannagötur, Hvammsfjörður, Nónborg, Hvammsá, Náttmálahæðir.
Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag