Fast er þrýst.

Greinar

“Við vonumst til, að við getum fjármagnað okkar hlut í þessu skipi með framlaginu, sem á að koma í gegnum Byggðasjóð,” sagði bæjarstjórinn í nýlegu blaðaviðtali. Og útgerðarstjórinn sagði í sama blaðaviðtali: “Þetta mál verður ekki leyst nema af stjórnvöldum.”

Sviðið er Húsavík og skipið er Kolbeinsey, sem er farin á höfuðið. Hún er metin á 170 milljónir, en skuldar 260 milljónir. Til að bjarga málum hefur verið stofnað hlutafélag. Það ætlar þó ekki að borga krónu, heldur starfa sem þrýstihópur gagnvart ríkinu.

Þegar margar kröfur af slíku tagi eru gerðar til ríkisins, harðlega studdar viðkomandi alþingismönnum, er ekki auðvelt að halda í skefjum skuldasöfnun hins opinbera. Enda er reynslan sú, að stjórnvöld láta gjarna undan þrýstingi og auka um leið lántökur í útlöndum.

Á grundvelli slíks þrýstings hefur ríkisvaldið ábyrgzt raðsmíði fiskiskipa, sem enginn vill kaupa eða getur keypt, meðal annars af því að of mörg eru til fyrir. Nú vilja alþingismenn skipasmíðastöðvanna, að ábyrgðin standi áfram, samtals 600-700 milljónir króna.

Kannski finnst þá einhver til að kaupa skip á kostnað hins opinbera. En þrýstiþingmenn spara sér alveg að reyna að verja útgjöldin með því að benda á önnur enn vitlausari útgjöld, sem spara mætti í staðinn, til dæmis 1.300 milljónir í niðurgreiðslur, uppbætur og beina landbúnaðarstyrki.

Ekki munu finnast í landinu peningar upp í mikið af óskhyggju og gæluverkefnum þrýstihópanna. Vextir eru orðnir svo óvinsælir, að ríkisstjórn og Seðlabanki ætla að fara að lækka þá. Það jafngildir því, að í vaxandi mæli verður að treysta á erlendar lántökur.

Fyrir rúmu ári námu erlendar skuldir 60,6% af þjóðarframleiðslu ársins. Um síðustu áramót námu þær 61,9% af þjóðarframleiðslu ársins, þrátt fyrir 2,5% aukningu hennar á árinu. Og um næstu áramót eiga þær að nema 63,9% þjóðarframleiðslu, þrátt fyrir 0,9% aukningu hennar.

Talan 63,9% er auðvitað langt yfir 60%, markinu, sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi. Þar að auki er talan sennilega of lágt áætluð. Frumvarpið til lánsfjárlaga er líklega með of lágum niðurstöðutölum eins og í fyrra. Þá nam vanmatið 367 milljónum króna.

Rökstyðja má, að gildandi fjárlög muni leiða til 750 milljón króna meiri lántöku í útlöndum til rekstrar ríkisins en frumvarpið til lánsfjárlaga gerir ráð fyrir. Auk þess er augljóst, að innlendur sparnaður til húsnæðismála verður mun minni en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þegar er búið að taka 200 milljónir af því fé, sem átti að vera til nýrra útlána. Það hefur verið notað til að leysa mál þeirra, sem hafa byggt, á kostnað hinna, sem eru að byrja að byggja. Fyrirhuguð vaxtalækkun mun ekki stuðla að því, að sú sjónhverfing verði að veruleika.

Horfur eru því á, að erlendu skuldirnar verði um næstu áramót komnar upp í 65-67% af þjóðarframleiðslu ársins. Það er von, að fjármálaráðherrann tali um að segja af sér. En honum er vorkunn, því að þrýstihóparnir steðja að úr öllum áttum, líka innan ríkisstjórnar.

Nú eru fulltrúar kartöfluflöguverksmiðja, steinullarverksmiðja og annarra slíkra hugsjóna að koma saman á landsfund stærsta framsóknarflokks þjóðarinnar, það er Sjálfstæðisflokksins. Þar verður niðurstaðan sú, að landinu sé svo vel stjórnað, að rétt sé að halda því áfram!

Jónas Kristjánsson

DV