Fasteign í brosi

Greinar

Þegar íslenzkir stjórnmálamenn eiga samskipti við útlönd, meta þeir bros viðmælenda sinna of mikils, þótt Hávamál vari við, að menn telji viðhlæjendur vera vini sína. Persónuleg sambönd, sem Íslendingarnir segja sig hafa í útlöndum, geta verið meira eða minna ímynduð.

Áherzla Íslendinga á persónuleg sambönd, raunveruleg eða ímynduð, byggist á innlendri reynslu, sem ekki á við sums staðar í útlöndum, þar sem menn eru komnir lengra á þróunarbrautinni frá fyrirgreiðslu- og úthlutunarkerfinu, er ríkir enn hér á landi.

Persónuleg sambönd skipta máli í alþjóðlegum samskiptum, en alls ekki eins miklu máli og í siðleysinu hér heima, þar sem vinir og viðhlæjendur fá á færi bandi fyrirgreiðslu og úthlutun, sem öðrum er meinuð. Skömmtun til gæludýra er ekki eins auðveld í útlöndum.

Ekki má heldur gleyma, að erlendir stjórnmálamenn og embættismenn eru margir þrautþjálfaðir í háttvísi. Þeir eiga erfitt með að segja “nei” berum orðum og klæða neitunina gjarna í orðagjálfur, sem grunnhyggnir bjartsýnismenn gætu túlkað sem eins konar já.

Einna mestu máli skiptir þó, að persónuleg sambönd í utanríkismálum eru háð valdaskeiði aðilanna. Tveir ráðherrar í Vestur-Þýzkalandi kunna að þykja hagstæðir í samskiptum, en einn góðan veðurdag eru þeir horfnir úr starfi og aðrir torsóttari teknir við.

Íslenzkir þrýstendur hafa löngum átt erfitt með að átta sig á þessu í innanlandsmálum. Sendinefndir þrýstihópa hafa gengið á fund ráðherra og kreist úr honum loforð um að beita sér fyrir hinu og þessu. Síðan fara nefndirnar heim og tala um loforðin eins og fasteign.

Á þessu er ekki aðeins sá galli, að stjórnmálamenn efna ekki allt, sem þeir lofa. Einnig er ljóst, að í ýmsum tilvikum tekur langan tíma að koma loforðum í framkvæmd. Áður en að því kemur eru nýir ráðherrar teknir við. Þá þurfa þrýstendur að byrja á núlli að nýju.

Af ýmsum slíkum ástæðum er skynsamlegt, að íslenzkir stjórnmálamenn einblíni ekki um of á persónuleg sambönd úti í heimi. Slík sambönd eru háð strangari siðareglum en hér, þau kunna að vera meira eða minna ímynduð og þau lenda oft í tímahraki.

Einn lærdómurinn, sem draga má af þessu, er, að óráðlegt er að safna eggjum sínum í eina körfu. Í utanríkismálum er brýnt að eiga nokkurra kosta völ, bæði í vinnuaðferðum og markmiðum. Þetta á að vera leiðarljós okkar manna í viðræðum um evrópskt samstarf.

Viturlegt er að gæta okkar hagsmuna á öllum vígstöðvum í senn, því að við vitum ekki fyrirfram, hverjar muni reynast okkur bezt. Við eigum að reyna að nota beinar viðræður við aðila í einstökum ríkjum Evrópubandalagsins, án þess að hafa ofurtrú á slíku.

Einnig eigum við að efla þátt okkar í sameiginlegum viðræðum Fríverzlunarsamtakanna við Evrópubandalagið. Um leið þurfum við að varast, að félagar okkar í samtökunum skilji fiskinn eftir, þegar til alvörunnar dregur og önnur mál færast á oddinn í viðræðunum.

Við höfum að undanförnu séð, hversu valt er að treysta grónum samböndum í sölu saltsíldar til Sovétríkjanna. Í því máli sluppum við fyrir horn að sinni. Viðskiptavild er ekki fasteign, þótt hún sé verðmæt. Enn síður getur bros í Bruxelles talizt til fastafjármuna.

Eitt meginatriðið er að hafa heimavinnuna í lagi og vera sífellt á vaktinni. Þá lendum við ekki allt einu í óvæntu rugli á borð við innflutningsbann á æðardúni.

Jónas Kristjánsson

DV