Fastir í forneskjunni.

Greinar

Þessa dagana er Björn Einarsson raftæknifræðingur að flytjast til Danmerkur. Ástæðan er sú, að danska tæknistofnunin og danskt fyrirtæki hafa áhuga á að nýta uppfinningar hans á sviði rafkerfa og koma þeim á alþjóðlegan markað.

Fyrir hálfu öðru ári fluttist Jóhannes Pálsson uppfinningamaður til Danmerkur. Ástæðan var sú, að danska tæknistofnunin og ýmis fyrirtæki höfðu áhuga á að nýta uppfinningar hans á borð við rafgeymaklemmur og lyfjaglasalok.

Næst má búast við, að erlendir aðilar taki upp á sína arma fiskimjölsþurrkara Hauks Baldurssonar vélaverkfræðings. Þessir þurrkarar nota gufuna frá hráefninu til hitunar og spara orku í mæli, sem nemur tugum prósenta.

Um áramótin er okkur umhugsunarefni, hve erfitt er að virkja hugkvæmni manna hér innanlands til eflingar margvíslegum nýiðnaði. Uppfinningamenn verða að hrekjast úr landi til að finna peninga til að framkvæma hugmyndirnar.

Sums staðar í útlöndum er þessu á annan veg farið. Í Danmörku hafa menn til dæmis lengi vanizt að þurfa að halda uppi nútímaþjóðfélagi án þess að hafa auðlindir á borð við málma, kol og olíu. Þeir nota heilabúið í staðinn.

Hvergi er nýting uppfinninga þó öflugri en í Bandaríkjunum. Þar starfa um 600 fyrirtæki að því að sóa fjármunum í áhættusamar hugmyndir. Þessi fyrirtæki fara jafnvel á mannaveiðar í háskólum til að finna uppfinningamenn.

Þar í landi gerast enn draumarnir um blaðsöludrenginn, sem varð að milljónamæringi. Ekki eru ýkja mörg ár síðan upphafsmenn Apple tölvunnar voru í bílskúr að dunda við að koma saman fyrsta eintakinu af hinni mögnuðu söluvöru.

Skynsamir braskarar í bandarískum áhættuiðnaði reikna með að tapa peningum á fjórum verkefnum af hverjum tíu og halda jöfnu í fimm þeirra. Í einu tilviki af tíu vænta þeir ofsagróðans, sem knýr allt þetta uppfinningastarf.

Sem dæmi um áhættuna, sem tekin er í Bandaríkjunum, má nefna, að tölvuverkfræðingurinn Gene Amdahl hefur samtals fengið sem svarar fimm milljörðum íslenzkra króna til að framleiða nýja tölvu, sem ætlað er að skáka IBM.

Í Evrópu eru menn að byrja að reyna að líkja eftir Bandaríkjamönnum, þótt hefðir frumkvæðis og brasks séu þar ekki eins öflugar. Í Svíþjóð eru til dæmis komnir til skjalanna tólf áhættusjóðir, flestir stofnaðir í fyrra.

Hvort sem þetta brask í nýjungum og uppfinningum er á vegum einstaklinga, fyrirtækja, sjóða eða opinberra stofnana, þá er hugsunin sú, að framtíðin felist í nýjum hlutum, en ekki í því gamla, sem of margir vasast í.

Auðvelt er að sjá, að grónar auðframleiðslugreinar á borð við smíði bíla, heimilistækja og véla eru að verða til vandræða. Og langt er síðan framleiðsla kola og smíði stáls og skipa varð að ómaga í mörgum löndum heims.

Við höfum í að minnsta kosti fimm ár sóað fjárfestingu og erlendu lánsfé í þegar ofvaxinn fiskiskipaflota. Og áratugum saman höfum við sóað forgangsfé í hringavitlausa framleiðsluaukningu á kindakjöti og mjólkurvörum.

Vegna forgangs úreltra verkefna að fjárfestingu hér á landi er ekkert aflögu til annarra og merkari hluta, svo sem að koma upp nýjungum, nýiðnaði, – gera uppfinningar að alþjóðlegri markaðsvöru. Við horfum aftur á bak, en ekki fram á við.

Jónas Kristjánsson.

DV