Fastir liðir að venju

Greinar

Skipun Steingríms Hermannssonar í stöðu seðlabankastjóra er í fullu samræmi við þá spillingarhefð í landsstjórninni, að einn alvörubankastjóri sé í bankanum og síðan tveir gervibankastjórastólar til ráðstöfunar fyrir tvo stærstu stjórnmálaflokkana í landinu.

Steingrímur Hermannsson leysir Tómas Árnason af hólmi, rétt eins og Birgir Ísleifur Gunnarsson leysti Geir Hallgrímsson af hólmi. Í öllum tilvikum er samtvinnað valdakerfi flokkanna að veita þreyttum stjórnmálamönnum náðugt hátekjubrauð að loknum löngum ferli.

Þannig telja stjórnmálaflokkarnir sig hafa til ráðstöfunar nokkra bankastjórastóla, nokkrar sendiherrastöður og nokkur embætti forstjóra ríkisstofnana, svo sem ýmis fræg dæmi hafa verið um á síðustu misserum. Ráðherrar Alþýðuflokksins hafa gengið harðast fram í þessari hefð.

Formaður bankaráðs Seðlabankans sagði af sér í gær út af skipun Steingríms, enda hafði bankaráðið talið tvo fagmenn í fjármálum og hagmálum hæfari til starfans en flokksformaðurinn, sem er fremur búinn kostum á öðrum sviðum en þeim, sem prýða eiga seðlabankastjóra.

Ágúst Einarsson bankaráðsformaður taldi framþróun eðlilega á þessu sviði. Hann vildi brjóta hefð pólitískrar spillingar við skipun bankastjóra Seðlabankans. Ráðherrann taldi brýnna að viðhalda hefðinni, þótt hann vissi, að formaðurinn mundi þess vegna segja af sér.

Við skipun Steingríms var notaður hefðbundinn leikaraskapur. Ráðherra talaði út og suður með engilbjörtum svip. Þegar hann var spurður, hvort skipunin hefði ekki fyrir löngu verið ákveðin, svaraði hann, að ákvörðun hefði verið formlega tekin þann hinn sama dag.

Ráðherrann fór fögrum orðum um, að þjóðin hefði valið Steinrím til að fara með landsmál og hlyti hann því í sjálfu sér að vera jafnhæfur til að fjalla um eina undirdeild í landsmálunum. Vantaði bara, að hann segði Steingrím ekki mega gjalda þess að vera stjórnmálamaður.

Ráðherra neitaði, að rifizt hefði verið um þetta mál á þingflokksfundi Alþýðuflokksins, þar sem þetta mál heyrði ekki undir þingflokka. Samkvæmt þessu er síbreytilegt, hvenær þingmenn flokksins eru á þingflokksfundi og hvenær þeir eru bara í eigin málfundafélagi.

Íslenzkir ráðamenn eru farnir að sérhæfa sig í þessari aðferð, er þeir líta á sem eins konar íþrótt. Þeir svara spurningum með vingjarnlegum útúrsnúningum og þykjast verða sármóðgaðir, ef menn leyfa sér að efast um, að verk þeirra séu reist á málefnalegum grunni.

Allt er þetta leikaraskapur, sem byggist á þeirri bjargföstu skoðun landsfeðranna, að kjósendur séu fávitar. Sannfæringin byggist raunar á þeirri dapurlegu staðreynd, að ráðherrar hafa löngum komizt upp með ýmislegt, sem ekki þætti góð latína í alvöruþjóðfélagi.

Hliðardæmi um tvískinnung stjórnmálamanna er, að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bankaráði Seðlabankans, Ólafur B. Thors, kvartaði yfir málsmeðferð ráðherrans, en hafði ekki talið ástæðu til andmæla, þegar flokksbróðir hans var skipaður bankastjóri fyrir nokkrum árum.

Bjarta hliðin á þessu máli er, að Seðlabankinn hefur svo lítil verkefni með höndum, að þar er nóg að hafa einn alvörubankastjóra með stuðning af fjölmennu liði aðstoðarstjóra af ýmsu tagi. Ekki er reiknað með, að pólitísku bankastjórarnir geti gert nokkuð af sér.

Þannig er vafalaust þegjandi samkomulag um, að fagmaðurinn Eiríkur Guðnason taki við hlutverki Jóhannesar Nordal sem fasts aðalbankastjóra Seðlabankans.

Jónas Kristjánsson

DV