Fastur á yztu nöf.

Greinar

Þótt forustumenn heimsveldanna gangi saman niður að Genfarvatni, eykst friðaröryggi jarðarbúa ekki neitt. Slíkum gönguferðum er ætlað að biðja fólk um að taka viljann fyrir verkið og hugsanlega einnig að breiða yfir nepju þess, að toppfundur sé nokkurn veginn árangurslaus.

Fundurinn í Genf er haldinn í skugga meira ofstækis forustumannanna en var hjá fyrirrennurum þeirra. Reagan Bandaríkjaforseti hefur að vísu smám saman orðið reynslunni ríkari og er nú ekki eins orðljótur um Sovétríkin og hann var fyrst í forsetatíð sinni.

Ekkert hefur hins vegar komið í ljós, sem bendir til, að Gorbatsjov hafi lært af neinni reynslu. Hann heldur líka fast við hina markvissu samningastefnu Gromykos að fara út á yztu nöf og sitja þar sem fastast, unz mótherjinn gefst upp fyrir friðarsinnum heima fyrir.

Gorbatsjov er raunar þegar farinn að virkja friðarsinna í Vestur-Evrópu með markvissari hætti en fyrirrennararnir. Þeir litu mjög eindregið á samskiptin við Bandaríkin sem hornstein heimsvaldastefnu sinnar, en Gorbatsjov reynir fremur að draga Vestur-Evrópu og Kína í spilið.

Markmið Gorbatsjovs er að kljúfa Vestur-Evrópu frá Bandaríkjunum, koma af stað ágreiningi þar í milli út af sem flestum atriðum, til dæmis geimskjaldaráætluninni, úr því að ekki tókst að koma á klofningi út af svari Vesturlanda við meðaldrægum eldflaugum Sovétríkjanna.

Á því sviði kemst hann í feitt. Almenningsálitið í Vestur-Evrópu er klofið. Ofan á fyrri tegundir friðarsinna hefur lúterska kirkjan í vaxandi mæli tekið að sér Júdasarhlutverk gegn frelsis- og mannréttindastefnu Vesturlanda með því að reka einhliða friðarstefnu.

Í hvert sinn, sem friðarsinnar í Vestur-Evrópu koma saman til einhliða aðgerða eða mótmæla gegn viðbúnaði Vesturlanda, sannfærast ráðamenn Sovétríkjanna betur um, að þeim henti vel að sitja sem fastast frammi á yztu nöf og bíða eftir bilun í vestrænu samstarfi.

Þegar Gorbatsjov hefur tekizt að reka fleyginn á kaf, hyggst hann færa sig upp á skaftið og gera Vestur-Evrópu að ljúfari aðila í samskiptum við Sovétheiminn. Við höfum kynnzt því hér, að kaupmenn og embættismenn hafa í viðskiptasamningi verið fengnir til að skrifa undir sovézkan áróður.

Okkur væri nær að gera stífa kröfu til Sovétríkjanna um, að komið verði upp óyggjandi vopnaeftirliti, sem leiði í ljós, hvort þar í landi sé SS-20 kjarnorkuvopni eða -vopnum beint til okkar og hvort hér á landi sé einhverjum slíkum vopnum beint að Sovétríkjunum.

Niðurstaða slíkrar athugunar yrði vafalaust sú, að Sovétríkin séu nú þegar sek um að beita okkur ógnun og ofbeldi af slíku tagi. Og við hlytum þá að krefjast þess, að umsvifalaust og einhliða yrði látið af slíku. Við mundum líka sjá betur, hvaða heimsvaldastefna er ofbeldishneigðust.

Meðan Gorbatsjov er ófáanlegur til að semja á alþjóðavettvangi um virkt og gagnkvæmt eftirlit með framkvæmd alþjóðasamninga, er útilokað fyrir Vesturlönd að gefa eftir í neinu. Sovétríkin hafa hingað til svikið alla samninga um takmörkun vígbúnaðar og aukin mannréttindi.

Kominn er tími til, að vestrænir friðarsinnar hætti að vera nytsamir sakleysingjar og átti sig á, að yfirlýsingar, hvort sem er um frystingu, samdrátt eða vopnalaus svæði, eru verri en engar, ef meginmarkmið þeirra er ekki að koma upp eftirliti, sem leiðir sannleikann í ljós.

Jónas Kristjánsson.

DV