Fát og fum á Alþingi

Greinar

Alþingi er sér enn einu sinni til skammar með óðagoti á síðustu dögum þinghaldsins. Flaustrið er raunar óvenju mikið í þetta skipti, af því að reynt er að flýta þinglokum vegna kosninganna, sem verða 25. apríl. Margt málið fær miklu minni skoðun en eðlilegt er.

Sem dæmi um vinnubrögðin má nefna, að nýju umferðarlögin voru afgreidd án breytingar á númerakerfi bíla, af því að ekki náðist að boða einn þingmann á aukalegan atkvæðagreiðslufund, sem haldinn var á óvenjulegum tíma. Þetta eina atkvæði réð úrslitum.

Fólk getur verið ósammála um, hvort réttara sé að taka upp nýtt bílnúmerakerfi, sem er einfaldara og ódýrara í meðförum en núgildandi kerfi eða að taka tillit til hagsmuna þeirra, sem hafa komið sér upp númerum, er þeir hafa dálæti á og vilja helzt ekki missa.

Hitt ætti fólk að geta verið sammála um, að niðurstaða eigi ekki að ráðast af því, hvort einn þingmaður finnst ekki, þegar í skyndingu og pati er verið að boða til aukalegs fundar, utan venjulegs fundartíma, til þess að greiða atkvæði um ekki ómerkara atriði en landslög.

Annað dæmi um skeytingarleysið voru umræður síðasta mánaðar um, hvenær skyldi kjósa. Framsóknarþingmenn höfðu bent á 9. maí, sem heppilegan dag. Þingflokksformanni sjálfstæðismanna og ýmsum öðrum þingmönnum lá mjög á og þótti þetta alltof seint.

Þeir sögðu opinberlega, að réttast væri að hafa Alþingiskosningar mánuði fyrr, 4. eða 11. apríl. Samkomulag varð um að fara bil beggja og velja ómögulegan dag, 25. apríl, beint ofan í sumardaginn fyrsta, páska og dymbilviku. Þingmenn virtust ekki eiga dagatal.

Síðan kom í ljós, að niðurstaðan var beinlínis tæknilega röng, því að stytta þurfti flesta lögbundna fresti vegna of skamms tíma til stefnu. Gott var þó, að tillagan um 4. eða 11. apríl náði ekki fram að ganga, því að þá hefði Alþingi orðið að algeru viðundri.

Mikið af óðagoti síðustu daga hefur farið í að knýja fram lög, sem ýmist eru umdeild eða of seint fram komin. Þar á meðal eru stórir lagabálkar, sem þingmenn ættu að fá að sofa á í heilt sumar, áður en ákvörðun er tekin í betra tómi og við nánari skoðun næsta vetur.

Áðurnefnd umferðarlög eru dæmi um mál, sem er allt í senn, viðamikið, umdeilt og seint fram komið. Samt hefur miklum tíma verið varið í að keyra það í gegn. Alþingi hefði síður glatað virðingu, ef umferðarlögunum hefði verið ýtt til næsta þings á komandi vetri.

Einnig er vafasamt að brýnt hafi verið að samþykkja í fáti umboðsmann Alþingis, lögbundinn sjómannadag og afnám prestskosninga, svo að örfá dæmi séu tekin. Tímanum hefði verið betur varið til að kryfja til beins hið brýna lagafrumvarp um staðgreiðslu skatta.

Breytingin í staðgreiðslukerfi skatta er svo afdrifarík, að hún ætti að fá rækilega skoðun á Alþingi. Þar sem ekki vinnst tími til þess, er í staðinn skipuð milliþinganefnd, sem á í sumar að leiðrétta lögin og leggja breytingartillögur fyrir næsta þing í haust.

Þetta eru að sjálfsögðu engin vinnubrögð. Enda hafa þingmenn ekki hugmynd um, hvort þeir eru að setja lög, sem minnka skattbyrði fólks eða auka hana. Báðum kenningum hefur verið haldið fram um staðgreiðsluna, svo að ljóst er, að hún þarf rækilegri skoðun.

Ekki er unnt að ætlast til, að þjóðin beri virðingu fyrir Alþingi, sem gerir sig bert að fáti og fumi í vinnubrögðum á borð við þau, sem hér hefur verið lýst.

Jónas Kristjánsson

DV