Fátækt hefur aukist svo mjög hér á landi, að sumt fólk á ekki til hnífs og skeiðar, þótt það hafi atvinnu. Láglaunastéttir draga saman seglin. Hætta að fara til tannlæknis, hætta að kaupa lyf og spara sér læknisþjónustu. Hætta að veita börnum sínum aðgang að tómstundaiðju og langskólanámi. Stéttaskiptingin er meira að segja farin að ganga í ættir. Um leið er fólki bent á að hata útlendinga fyrir að undirbjóða vinnuafl sitt. Þannig ýta eigendur ríkisins ábyrgðinni frá sér. Fátæktargildru fylgir útlendingahatur, verra heilsufar, lakari menntun, meira fylgi við flokka með ívafi nýfasismans. Ísland í dag.