Fávísleg styrjaldaraðild

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að svara tollmúrastefnu Evrópusamfélagsins með 100% refsitollum á franskar lúxusvörur. Á sama tíma eru íslenzk stjórnvöld að stíga fyrsta skrefið í átt til viðskiptastríðs gagnvart Bandaríkjunum og öðrum ríkjum utan Evrópu.

Í stjórnkerfinu er verið að vinna að nýjum reglum, sem fela í sér flutning gjalda frá vörum Evrópusamfélagsins yfir til varnings frá öðrum stöðum, svo sem Bandaríkjunum og Japan. Þetta getur til dæmis komið niður á japönskum og bandarískum bílum í innflutningi.

Með þessum hættulegu ráðagerðum íslenzkra stjórnvalda er verið að taka upp þau vinnubrögð Evrópusamfélagsins að leggja ekki minni áherzlu á að reisa tollmúra út á við heldur en að lækka tolla inn á við. Þessi verndarstefna stríðir gegn hugmyndafræði fríverzlunar.

Ef íslenzk stjórnvöld vilja halda óbreyttum tekjum, er bezt að gera það með gjöldum, sem leggjast jafnt á vöruna, hvort sem hún er framleidd hér heima og hvaðan sem hún kemur úr heiminum, en vera ekki að hossa Evrópusamfélaginu á kostnað annarra viðskiptavina.

Okkur hefur verið sagt, að þátttaka í Evrópska efnahagssvæðinu feli ekki í sér neina skylduaðild að tollmúrastefnu Evrópusamfélagsins. Tilraunir í stjórnkerfinu til að gera Íslendinga að sjálfboðaliðum í þágu þessarar stefnu stinga í stúf við slíkar fullyrðingar.

Það er stjórn Bush Bandaríkjaforseta, sem ákvað að leita heimildar til gagnaðgerða vegna þvergirðingsháttar Evrópusamfélagsins. Flestir eru sammála um, að stjórn Clintons Bandaríkjaforseta muni að minnsta kosti ganga jafn langt í að halda úti viðskiptastríði.

Evrópusamfélagið á mesta sök á, hvernig komið er fyrir tilraunum til að efla fríverzlun í heiminum. Það semur reglugerðir, sem stríða gegn því, er ríki þess hafa samþykkt í Alþjóðlega tollaklúbbnum GATT. Og það hefur franskan landbúnað fyrir heilaga kú.

Forstjóri Evrópusamfélagsins er franskur miðstýringarsinni, Jacques Delors, sem ætlar sér stóra hluti í franskri pólitík, þegar Evrópa hefur losað sig við hann. Landbúnaðarforstjóri Evrópusamfélagsins hefur ekki fengið að semja um frið vegna ofríkis Delors.

Afstaða Delors og Evrópusamfélagsins gegn tilraunum Alþjóðlega tollaklúbbsins til að efla fríverzlun í heiminum hefur sáð frækornum viðskiptastríðs, þar sem ríki munu raða sér í fylkingar til að hefna sín hvert á öðru. Afleiðingin verður ennþá meiri kreppa en nú er.

Bandarísk stjórnvöld hafa nú ákveðið að láta ekki bjóða sér meira af þvergirðingi Evrópusamfélagsins. Líklegt er, að miðstýringarmenn þess muni reyna að fá aðildarríkin til að svara með auknum verndartollum af sinni hálfu. Þetta verður strax að viðskiptastríði.

Íslenzk stjórnvöld mega ekki glepjast til að reisa neina þá tollmúra, sem stríðandi aðilar í útlöndum geti talið beint gegn sér. Hagsmunir Íslendinga felast í sem víðtækastri fríverzlun í heiminum, en ekki í óviljandi aðild að atkvæðaveiðum Delors á frönsku landsbyggðinni.

Í tæka tíð verður að stöðva tilraunir í stjórnkerfinu til að færa tekjustofna í innflutningi frá afurðum Evrópusamfélagsins til afurða Bandaríkjanna og Japans. Tilraunirnar stríða gegn hagsmunum Íslendinga sem þeirrar þjóðar heims, sem mest er háð fríverzlun.

Þátttaka okkar í viðskiptakerfum má undir engum kringumstæðum leiða til þess, að við förum að taka óbeinan þátt í flokkadráttum, sem verða okkur dýrir.

Jónas Kristjánsson

DV