Fé skortir og fé er til.

Greinar

Seðlabaukinn er sveigjanleg stofnun, sem reynir að þjónusta óskhyggju allra ríkisstjórna. Hann hikar ekki við að framleiða verðbólgu í því skyni. Til dæmis er helzta verkefni hans að prenta seðla, sem ekki er til fyrir.

Annað veigamesta verkefni Seðlabankans er að taka peninga af bankamarkaði og endurlána þá með sérstökum gjafakjörum, sem framleiða verðbólgugróða. Bankinn hefur verið öflugasti verðbólguframleiðandinn á síðustu áratugum.

Þegar Seðlabankinn skiptir skyndilega um hagfræðikenningar, er ástæða til að óttast, að hann sé að þjónusta nýja óskhyggju nýrrar ríkisstjórnar. Og nú er komin ríkisstjórn, sem vill sumpart leysa húsnæðislánavandann með sjónhverfingum.

Bankinn sagði um daginn, að meta þyrfti “hvort ekki sé æskilegt að draga kerfisbundið úr notkun verðtryggingar á lánamarkaði, einkum innan bankakerfisins …”. Þetta er hættulega verðbólguhvetjandi yfirlýsing.

Að vísu bætir bankinn ákveðnum skilyrðum við: “ … en þó ekki fyrr en verðbólgan hefur minnkað svo mikið, að eðlilegir vextir nægi til þess að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda og viðunandi framboð á innlendu fjármagni”.

Í ríkisstjórninni eru uppi ímyndanir um, að verðbólgan sé að lækka hraðar en raun er á. Albert Guðmundsson lagði í síðustu viku til 30% húsnæðisvexti þótt verðbólga tíðandi stundar nemi enn sem svarar 100% á ári.

Þá eru í ríkisstjórninni hugmyndir um, að sparifjáreigendur verði að blæða eins og aðrir í þjóðfélaginu. Steingrímur Hermannsson hefur lýst þessari skoðun, þótt engir hafi sætt grófara arðráni á liðnum árum.

Það eru ekki fyrst og fremst hagsmunir sparifjáreigenda, sem valda því, að þjóðfélagið verður að verð tryggja sparifé. Miklu frekar er í þágu lántakenda, að sparifé haldizt í bönkum og renni helzt inn í stríðum straumum.

Ekki finnast þeir, sem hafa beðið um nýja aukningu verðbólgugróða. Ekki voru það húsbyggjendur og húskaupendur, sem héldu fundinn fræga í síðustu viku. Þeir tóku sérstaklega fram, að þeir vildu endurgreiða sín lán að fullu.

Þeir voru ekki heldur að mæla með sjónhverfingum, sem litlu máli skipta, svo sem hagræðingu á prósentum og tilfærslum milli mánaða. Þeir voru að leggja til, að lán yrðu hækkuð og lánstími lengdur, svo sem flokkarnir hafa lofað.

Meira fjármagn er það, sem þarf. Fram hjá meira fjármagni verður ekki komizt. Það kostar peninga að efna kosningaloforð um 80% húsnæðislán til 40 ára. Það finnst ekki með því að magna verðbólgugróða að nýju.

Hins vegar eru þessir peningar til. Þeir eru bara brenndir í óþarfri fjárfestingu í landbúnaði kúa og kinda, er síðan brennir rekstrarfé, og í óþarfri togarafjárfestingu, er dregur úr arðsemi þeirrar útgerðar, sem fyrir er.

Peningarnir eru einnig til í útflutningsuppbótum og beinum styrkjum til landbúnaðar kúa og kinda. Þeir eru í eyrnamerktum lánveitingum ýmissa sjóða til arðlausra verkefna, fyrst og fremst á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Nú þegar brenna Seðlabankinn og Framkvæmdastofnunin og ýmsir aðrir peningafarvegir stjórnvalda mun meira fé en þarf til að leysa lánavanda húnnæðismarkaðarins og til að efna kosningaloforð um 80% lán til 40 ára.

Jónas Kristjánsson.

DV