FEIF berst við Skota og Evrópusambandið

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Mikil læti hafa verið um aðild Skotlands að WorldFeng, sem FEIF, alþjóðasamtök íslenzka hestsins, hafa eindregið lagzt gegn.

Upphafið má rekja til þess, að Clive Philips var formaður brezka Íslandshestafélagsins, en var felldur úr því starfi og stofnaði þá sérstakt samband í Skotlandi, SIHA. Skotland er sérstakt land með eigin þingi í því sameinaða konungsveldi, sem Bretland er. FEIF hefur ekki samþykkt aðild þessa félags, en það hefur þó fengið viðurkenningu Evrópusambandsins og skozkra stjórnvalda.

Hinn 12. nóvember í fyrra sendi landbúnaðarráðuneytið Bændasamtökum Íslands bréf, þar sem segir m.a.:

“Skoska Íslandshestafélagið vill ekki una því að geta ekki skráð hross milliliðalaust í “móðurættbókina”, WorldFeng, heldur að vera vísað á að fá skráningu hjá Brezka Íslandshestafélaginu (IHSGB) samkvæmt ákvæðum í samningi milli FEIF og BÍ. Milli þessara samtaka er ekki samkomulag um þetta fyrirkomulag, og sáttaumleitanir BÍ hafa, að því er virðist, engan árangur borið.

Það er ágreiningslaust, að skoska félagið SIHA hefur viðurkenningu Evrópusambandsins og skoskra stjórnvalda til að halda ættbók yfir íslensk hross, og uppfyllir félagið þar með skilyrði reglugerðar um uppruna og ræktun íslenska hestsins nr. 948/2002 um ættbókarfærslu í WorldFeng.

Ráðuneytið telur ótvírætt, að Skoska Íslandshestafélagið eigi að njóta jafnræðis við önnur erlend ræktunarfélög sem uppfylla sett skilyrði og Bændasamtökunum beri að veita félaginu skráningaraðgang að WorldFeng, annað hvort með beinum hætti eða þannig að BÍ annist skráninguna fyrir SIHA án atbeina eða afskipta annars jafnsetts félags. Hér með er lagt fyrir Bændasamtök Íslands að koma þessum málum í rétt horf.”

Bændasamtökin skýrðu brezka sambandinu frá þessari niðurstöðu, en Bretarnir vísuðu því til FEIF, sem brást illa við á aðalfundi, sem haldinn var 15. febrúar 2004. Í fundargerðinni kemur að vísu ekki fram, að ályktað hafi verið um málið á fundinum, en skýrt er frá þeirri ákvörðun stjórnar, að stjórnarmennirnir Per Anderz Finn og Jens Iversen yrðu sendir til Íslands síðar í mánuðinum til að kynna sjónarmið stjórnar FEIF.

Samkvæmt fundargerðinni virðist svo sem ekki sé hægt að sættast á, að aðrir aðilar en þeir sem eru aðilar að FEIF geti skráð hross í WorldFeng. Áður hafði aðild skozka félagsins að FEIF verið hafnað. Fulltrúi Landssambands hestamannafélaga á aðalfundinum studdi þessi viðhorf.

Koma FEIF manna til Íslands 26. febrúar 2004 leiddi til þess, að íslenzka landbúnaðarráðuneytið dró fyrri reglugerð og fyrra bréf um málið til baka með nýrri reglugerð og nýju bréfi til Bændasamtakanna í júní 2004, þar sem forstjóra þeirra eru gefnar frjálsar hendur til að leysa málið eftir hans beztu vitund með því að setja skilyrði um skráningu í WorldFeng.

Eftir sinnaskipti landbúnaðarráðuneytisins eru Bændasamtök Íslands komin í þá aðstöðu að telja sig verða að skipta um skoðun og neita Skotum um ættbókarfærslu á svipaðan hátt og Íslendingum var neitað um að ganga undir eigin fána en ekki dönskum, þegar landið var hluti Danaveldis. Hugmynd Bændasamtaka Íslands hafði áður verið, að Ísland annaðist skráningu fyrir Skotland og að Skotland fengi ekki sérstaka bókstafi í WorldFeng. Á þá málamiðlun hefur FEIF ekki fallizt.

Brezka sambandið hefur ekki lengur bein afskipti af málinu, en vísar því til stjórnar FEIF, sem er hörð gegn aðild SIHA að FEIF og WorldFeng. Skýringin á þessu viðhorfi er talin vera sú, að stjórnin óttist félagslegan glundroða í hreyfingu hestamanna, ef einstök lönd, sem ekki mynda fullvalda ríki, til dæmis þýzku löndin, geti gerzt sjálfstæðir aðilar að FEIF og WorldFeng.

Á landsmóti hestamanna afhentu Bændasamtökin formanni FEIF bréf, þar sem sagt er, að framvinda málsins verði áfram í fullu samráði og samstarfi við FEIF. Íslenzk hross í Skotlandi verða því að sinni ekki skráð í WorldFeng.

Boltinn er því hjá Skotum núna, sem hugleiða að kæra niðurstöðuna til Evrópusambandsins, er hefur sett reglur um ættbækur fyrir hesta, sem samningur Bændasamtakanna og FEIF um WorldFeng uppfyllir ekki.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins er ekki hægt að halda ættbækur hrossa í samstarfi klúbba eða samtaka á borð við FEIF, sem útiloka aðra klúbba, auk þess sem SIHA er viðurkenndur aðili hjá Evrópusambandinu. Þar sem Ísland er ekki í Evrópusambandinu er ekki ljóst, hvort þessi ákvæði þar binda hendur landsins að einhverju leyti, en á það mun hugsanlega reyna í síðari málaferlum. Staðan getur líka á ýmsan annan hátt truflað íslenzka hagsmuni, þegar fram líða stundir. Í bréfi Skota til íslenzka ráðuneytisins er rakin staða Evrópusambandsins í málinu.

Það er svo skondinn vinkill í málinu, að Clive Philips, forustumaður Skotanna, er einmitt lögfræðilegur höfundur samningsins, sem felur í sér umdeilt einkaleyfi FEIF sem samstarfsaðila Bændasamtakanna um WorldFeng.

Eiðfaxi 6.tbl. 2004